Fyrsta kitlan er komin út fyrir stjörnum prýdda nýjustu mynd Ridley Scott, spennutryllinn The Counselor, sem margir bíða eftir.
Myndin er byggð á fyrsta kvikmyndahandriti rithöfundarins Cormac McCarthy.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan.
Myndin fjallar um lögfræðing, sem leikinn er af Michael Fassbender, sem fer út í hluti sem hann ræður ekki við þegar hann í óvitaskap sínum flækist inn í starfsemi eiturlyfjahrings.
Í myndinni leika einnig aðalhlutverk þau Brad Pitt, Javier Bardem, Cameron Diaz og Penélope Cruz.
Árið 2009 var gerð kvikmynd eftir „heimsendabók“ McCarthy, The Road, með Viggo Mortensen og Kodi Smit-McPhee í hlutverkum feðga á ferð eftir að kjarnorkusprengja hefur sprungið á jörðinni.
Fyrir bókina The Road fékk McCarthy Pulitzer verðlaunin í Bandaríkjunum.
McCarthy er einnig höfundur bókarinnar No Country for Old Men sem Coen bræður kvikmynduðu árið 2007.
The Counselor verður frumsýnd 25. október nk. í Bandaríkjunum.