Fyrir stuttu kom í ljós að leikstjórinn Ridley Scott ynni að nýrri mynd í Alien-seríunni víðfrægu. Eins og margir vita leikstýrði Scott allra fyrstu myndinni í seríunni árið 1979 og átti sú næsta að eiga sér stað einhverjum tíma fyrir atburði fyrstu myndarinnar. Seinna kom í ljós að myndin hefði hlotið titilinn ‘Prometheus’ og fóru þær fregnir af stað að hún tengdist Alien-seríunni lítið sem ekki neitt.
Samkvæmt heimildum Sky er þetta rangt, en ‘Prometheus’ gerist í sama heimi og Alien myndirnar, og munu fjalla mjög ítarlega um geimverurnar ógurlegu. „Það er verið að byggja sett sem sáust í fyrstu Alien-myndinni þannig að þetta er klárlega sami heimur.“ sagði heimildamaður Sky. „Fréttatilkynningin fékk marga til að halda því fram að þetta væri ekki Alien-mynd. En geimverurnar sem HR Giger hannaði fyrir upprunalegu myndina birtast svo sannarlega. Og þær verða stórar.“
Heimildamaðurinn, sem er ónefndur en vinnur við Prometheus, segir myndina fjalla um uppruna geimveranna sem hafa hrjáð heiminn í hryllingsmyndunum misgóðu, sem og vígalegra styttna sem má sjá í fyrstu myndinni og hafa lengi verið umræddar meðal aðdáenda myndanna.
Meðal þeirra leikara sem ráðnir hafa verið í myndina eru Noomi Rapace, úr Millenium-þríleiknum, og Michael Fassbender. Á sama tíma berjast Angelina Jolie og Charlize Theron víst hart um hlutverk í myndinni.
– Bjarki Dagur