Fjögur plaköt og stikla frá Coen-bræðrum

Næsta mynd frá Coen-bræðrunum hæfileikaríku ber þann skemmtilega titil True Grit, en þeir bæði skrifuðu og leikstýrðu henni í sameiningu. Fyrir nokkru síðan kom gífurlega flott stikla úr myndinni á netið en nýverið voru gefin út fjögur plaköt fyrir myndina. Allt heila klabbið má sjá hér fyrir neðan.

True Grit fjallar um táningsstelpuna Mattie Ross, en faðir hennar er myrtur af flakkaranum Tom Chaney, sem Josh Brolin leikur. Mattie dettur ekki annað í hug en að ná fram hefndum og fær með sér í lið drykkjurútinn Rooster Cogburn, leikinn af Jeff Bridges sem vann til Óskarsverðlauna fyrir myndina Crazy Heart. Matt Damon bregður einnig fyrir í myndinni sem LaBouef, en sá vill einnig hafa hendur í hári Tom Chaney. Myndin er byggð á skáldsögu frá árinu 1968, en hún kemur út í Bandaríkjunum á jóladag.

-Bjarki Dagur