Er Robocop í ruglinu?

Tökur á endurgerð Robocop endurgerðinni fara að hefjast innan skamms, og er stefnt á að hún komi út innnan árs, eða í ágúst 2013. Strax eru orðrómar farnir á kreik um að framleiðslan gangi illa, sem veldur áhugasömum áhyggjum. Total Recall endurgerðin gaf heldur ekki beint til kynna að það væri besta hugmyndin að endurgera fleiri Paul Verhoeven klassíkera.

Leikstjóri endurgerðarinnar er hinn brasilíski José Padilha sem á að baki Tropa de Elite myndirnar lofuðu. Hann þótti skemmtilegur og djarfur valkostur, og hefur tjáð sig um það að hann hafi ekki áhuga á að herma bara eftir fyrri myndinni heldur sé með eigin hugmyndir sem hann vilji setja fram. Hann nældi sér líka í engan smá leikhóp, en ásamt sænska sjarmörnum Joel Kinnaman í titilhlutverkinu verða Gary OldmanSamuel L. JacksonAbbie CornishJennifer EhleJackie Earle Haley og Jay Baruchel í myndinni.

Fyrir nokkru komst atvinnukvikmyndanördinn Drew McWeeny – sem áður skrifaði undir nafninu Moriarty – í handrit myndarinnar, og fannst lítið til þess koma, svo það sé orðað mildilega. Annað áfall fékk myndin þegar breski gamanleikarinn Hugh Laurie (House) dró sig út úr hlutverki illmennis myndarinnar. Clive Owen er nú orðaður við hlutverkið en þó hann sé ágætur teljast það nú seint góð skipti. Góðar myndir hafa samt alveg lifað af verri hluti en þetta.

Það sem helst veldur höfuðverk núna er viðtal sem birt var við leikstjórann Fernando Meirelles (City of God), sem er kollegi og vinur Padilha. Þar sagði hann:

„Ég talaði við José Padilha í símann fyrir viku. Hann er að fara að taka Robocop. Hann segir að þetta sé hans versta lífsreynsla. 9 af hverjum 10 hugmyndum sem hann kemur með eru skotnar niður. Hvað sem hann vill, þarf hann að berjast fyrir. „Þetta er helvíti“ sagði hann mér. „Myndin verður góð, en ég hef aldrei þjáðst svona mikið og vil aldrei gera þetta aftur“. Hann er bitur en hann berst áfram.“

Með fyrirvara um að þetta er þýtt úr portúgölsku, yfir á ensku og svo á íslensku, þá skín þetta nokkuð skýrt í gegn. Þetta væri alls ekki í fyrsta skipti sem stúdíóin fá lofandi en óreyndan leikstjóra til þess að fara fyrir stórmynd, en gefa honum svo aldrei fulla stjórn á því sem hann er að gera. David Fincher og Alien³ er sennilega eitt besta dæmið um það.

En góðu fréttirnar eru þær að Padilha er ennþá viss um að myndin verði góð, og ætlar að halda áfram að berjast. Líklega megum við þó ekki búast við honum í framhaldsmyndina. Þessi þrenna af neikvæðri athlygli kemur sér ekki vel fyrir myndina, sem var byrjuð á net markaðssetningu sinni. Fyrr í sumar var opnuð heimasíða fyrirtækisins OmniCorp þar sem m.a. má sjá þetta myndband:

Hvað segja lesendur. Nær Padilha að bjarga þessu eða er myndin dauðadæmd? Er það vitleysa yfirleitt að vera að endurgera Robocop