Elba ekki Deadshot

The Suicide Squad endurræsingin, sem stendur til að gera, hefur verið nokkuð í fréttum síðustu daga. Fyrst komu fréttirnar af því frá framleiðandanum Peter Safran að um „algjöra endurræsingu“ yrði að ræða. Þá staðfesti A Good Day to Die Hard leikarinn Jai Courtney að hann myndi snúa aftur í hlutverki sínu úr upphaflegu myndinni sem Captain Boomerang, auk þess sem Viola Davis mun sömuleiðis snúa aftur sem Amanda Waller.

Idris Elba

Núna segir Variety kvikmyndaritið frá því að breski leikarinn Idris Elba, sem átti að taka við hlutverki Deadshot, af Will Smith, sem lék ofurhetjuna í upprunalegu myndinni, muni ekki leika Deadshot. Í staðinn myndi hann taka að sér annað hlutverk.

Will Smith sem Deadshot í Suicide Squad.

Variety segir að leikstjóri myndarinnar, James Gunn, og framleiðendur, hafi ákveðið að fjarlægja Deadshot úr handriti myndarinnar, eftir nokkurra vikna vangaveltur. Svo virðist sem Idris Elba sem Deadshot hafi ekki alveg verið meitlað í stein frá upphafi. Ekki er vitað hvaða hlutverk Idris Elba mun leika í myndinni, nú þegar þetta hefur verið ákveðið.

Ein ástæðan sem sögð er fyrir þessari breytingu er að framleiðendur vilji sýna Will Smith virðingu, og halda dyrum opnum fyrir mögulega endurkomu hans í framtíðinni sem Deadshot. Eins og Variety segir þá var endanlega ástæðan fyrir því að Smith gat ekki leikið í myndinni sú að hann var of upptekinn í öðrum verkefnum, en ekki listrænn ágreiningur.

Suicide Squad er byggð á samnefndum teiknimyndablöðum frá DC-Comics og segir frá nokkrum and-hetjum sem hafa hingað til notað hæfileika sína til illra verka, enda eru þær allar í fangelsi. Dag einn býðst þeim að sameina krafta sína í sérsveit á vegum stjórnarinnar og takast á hendur það verkefni að stöðva yfirvofandi ógn.

Sveitin hefur tekið breytingum í gegnum tíðina, en Deadshot hefur alltaf verið lykilmaður í teyminu.

Von er á Suicide Squad í bíó 6. ágúst 2021.