Ekki búast við bregðuatriðum eins og í The Conjuring

Þegar nafn leikstjórans og framleiðandans James Wan ber á góma tengja margir það strax við annars vegar pyntingaklám (e. torture porn) vegna Saw myndaflokksins ódauðlega og hinsvegar draugahroll eins og í The Conjuring.

Í nýjustu mynd sinni, Malignant, sem hann bæði leikstýrir og skrifar handrit að, vill Wan eyða þessum klisjum um sjálfan sig. Í samtali við tímaritið SFX segir hann að markmiðið hafi verið að gera mynd sem væri andstæðan við allar aðrar myndir hans.

„Ef fólk ætlar að mæta í bíó til að fá sömu bregðuatriðin sem það er vant úr Insidious eða Conjuring myndunum, þá verður það fyrir vonbrigðum.“

Hann bætir við að hann hafi viljað að myndin yrði hefðbundinn rannsóknartryllir sem svo vill til að er líka ofbeldisfullur og spennuþrunginn. „Þetta er eiginlega spennutryllir umfram allt. […] þetta er meira svona eins og blóð og innyflamynd frá níunda áratug síðustu aldar frekar heldur en svona rólegheita draugamynd.“

Saw myndir Wans urðu níu talsins og Conjuring myndaserían hefur mokað inn meira en einum milljarði bandaríkjadala um allan heim, eða nálægt 130 milljörðum íslenskra króna.

Mega áhorfendur eiga von á framhaldi af Malignant eins og áðurnefndum myndum?

„Þetta er svona trikk spurning,“ segir Wan. „Þegar allt kemur til alls getur allt orðið framhaldsmyndasería […] En ég byrja á þessari einu.“