Eckhart eltist við hættulegan Pétur Pan

Það eru þónokkrar myndir um Pétur Pan í burðarliðnum, en það verður að segjast að sú áhugaverðasta sé í vinnslu hjá Warner Bros. Í myndinni, sem Guillermo Del Toro átti upprunalega að leikstýra en hætti við, fer Aaron Eckhart (The Dark Knight) með hlutverk Kaptein Króks. Í myndinni er Kapteinninn fyrrum rannsóknarlögreglumaður sem eltir uppi Pétur Pan, stórhættulegan og brenglaðan barnaræningja.

Leikkonan unga AnnaSophia Robb mun fara með hlutverk Mary, eina eftirlifandi fórnarlambs Pétur Pans, en hún yfirgefur geðveikrahæli til að aðstoða persónu Eckharts við leitina. Sean Bean, sem gerir allt brjálað þessar mundir í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones, mun leika Smee, lögreglumann og félaga Króks.

Eins og áður sagði stóð upprunalega til að Guillermo Del Toro leikstýrði myndinni en hefur það verkefni fallið í hendur hins óreynda Ben Hibson, en hann starfaði við tæknibrellur Harry Potter & The Deathly Hallows Part 1. Tökur eru sagðar hefjast í Austur-Evrópu í október.