Kvikmyndin Trouble With the Curve er nýjasta mynd Clints Eastwood sem leikstýrir þó ekki í þetta sinn heldur lætur samstarfsleikstjóra sinn til margra ára um verkið. Samstarfsleikstjórinn heitir Robert Lorenz og er Trouble With the
Curve fyrsta myndin sem hann leikstýrir upp á eigin spýtur eftir að hafa starfað um árabil sem „Second Unit Director“ við hinar ýmsu myndir, þar á meðal Eastwood-myndirnar Mystic River, Million Dollar Baby, Blood
Work, Space Cowboys, True Crime og fleiri.
Trouble With the Curve segir frá gömlum hafnaboltaref, Gus, sem
Eastwood leikur. Sjón hans er farinn að daprast verulega sem aftur hefur leitt til þess að hann á sífellt erfiðara með að sinna starfi sínu, en það felst í því að koma auga á nýja og efnilega hafnaboltaleikmenn á meðal áhugaliðanna. Til að bjarga málunum ákveður dóttir hans að aðstoða hann í „leitarferð“ sem á e.t.v. eftir að verða hans síðasta.