Dunst hleypur í skarðið fyrir Moss

Kvikmyndavefurinn Deadline segir frá því að Hidden Figures leikkonan Kirsten Dunst ætli að hlaupa í skarðið fyrir Us leikkonuna Elisabeth Moss í kvikmyndinni The Power of the Dog. Myndin er kvikmyndagerð af samnefndri skáldsögu frá árinu 1967 eftir Thomas Savage, og er með Doctor Strange leikaranum Benedict Cumberbatch í aðal karlhlutverkinu.

Dunst í Hidden Figures.

Moss neyddist til að gefa hlutverkið upp á bátinn vegna árekstra við önnur verkefni.

Netflix keypti kvikmyndina, sem er vestri, á Cannes hátíðinni í Frakklandi í vor.

Jane Campion (The Piano, Top of the Lake) skrifaði handrit myndarinnar og mun einnig leikstýra.

Sagan segir frá auðugum bræðrum frá Montana, Phil, sem Cumberbatch leikur, og George Burbank. Phil er bráðsnjall en grimmlyndur, og George er vandfýsinn og viðkvæmur.

Saman eiga þeir stærsta búgarðinn í Montana dalnum. Þegar George kvænist ekkjunni Rose á laun, sem Dunst leikur, þá reiðist Paul, og hyggst eyðileggja líf hennar, og nota til son hennar Peter sem peð í þeirri refskák.

Framleiðsla á The Power of the Dog hefst í lok þessa árs, og kemur svo á Netflix árið 2021, sem og í bíó.