Dreamworks einbeitir sér að framhaldsmyndum

Mennirnir bakvið Dreamworks kvikmyndaverið ætla að halda sig við framhaldsmyndir komandi ár en Jeffrey Katzenberg, höfuðpaur Dreamworks, ræddi það í samtali við Empire tímaritið.

Samkvæmt Katzenberg eru þeir að einbeita sér að næsta framhaldi af Madagascar-seríunni, en þær myndir verða fjórar allt í allt. „Í þriðju myndinni koma þau aftur til New York og það mun vonandi leiða yfir í fjórðu myndina.“

Myndin How to Train your Dragon frá Dreamworks sló rækilega í gegn en Katzenberg segir að þeir hafa ákveðið að gera þrjár myndir í viðbót, en vonast til að fá að gera fleiri. „Við erum búnir að ákveða þrjár myndir í viðbót, en bækurnar eru átta talsins svo við höldum vonandi áfram.“

Nýlega birtist á netinu teaser trailer fyrir Kung Fu Panda 2, en Dreamworks ætla sér að gera hvorki meira né minna en 6 Kung Fu Panda myndir. „Kung Fu Panda er sex kafla saga. Þegar fyrsta myndin sló í gegn skrifuðum við söguna í heild sinni, og það eru sex myndir.“

Það er víst að Dreamworks muni hafa nóg fyrir stafni á komandi árum, en spurning er hvort þessar myndir nái að halda vinsældum svo lengi.

– Bjarki Dagur