Dóttir Brosnan látin

THE GHOST WRITERDóttir breska leikarans Pierce Brosnan, Charlotte, lést síðastliðinn föstudag, 28. júní, úr krabbameini í eggjastokkum. Hún var aðeins 41 árs gömul.

„Charlotte barðist við krabbameinið af hugrekki, glæsibrag, mannúð og reisn,“ sagði Brosnan í yfirlýsingu sem People tímaritið birti í gær, mánudag.

„Það er þungbært fyrir okkur að missa okkar kæru og fallegu dóttur. Við biðjum fyrir henni og biðjum fyrir því að lækning finnist á þessum herfilega sjúkdómi sem fyrst. Við þökkum öllum er sýnt hafa samúð.“

Brosnan hefur verið við tökur á spennutryllinum November Man í Austur-Evrópu, en flaug til Bretlands til að vera við hlið dóttur sinnar, að því er breska blaðið Telegraph greinir frá.

Hún skildi við umkringd ástvinum sínum, þar á meðal eiginmanni og tveimur börnum á aldrinum 14 og 8 ára.

Móðir Charlotte, Cassandra Harris, var fyrsta eiginkona Brosnan. Bond leikarinn ættleiddi Charlotte og bróður hennar Christopher eftir að líffræðilegur faðir þeirra lést, samkvæmt Telegraph. Harris lést úr sama krabbameini árið 1991. Móðir hennar dó einnig úr sama sjúkdómi.