Leikstjórinn Guillermo del Toro segir að Pacific Rim 2 verði gerð, þrátt fyrir að framleiðslu hennar hafi verið frestað um óákveðinn tíma.
„Við ætlum að skila handritinu og fjárhagsáætlun eftir þrjár vikur,“ sagði leikstjórinn við EW.
„Frá mínum bæjardyrum séð er ekki búið að hætta við myndina. Við erum enn að vinna í henni. Hún var bara færð aftur. Ég geri kannski aðra mynd í millitíðinni,“ sagði hann.
Tökur á Pacific Rim 2 áttu að hefjast í nóvember en fyrirtækið Legendary Pictures hætti við það og ákvað að fresta myndinni. Ekkert hefur komið fram um ástæðuna fyrir því.
Pacific Rim, sem kom út 2013, gerist á þriðja áratug þessarar aldar þar sem jarðarbúar nota risavaxin vélmenni, Jaegers, til að berjast við sjávarskrímslin Kaijus.
Næsta mynd del Toro er hrollvekjan Crimson Peak með Jessica Chastain og Tom Hiddleston í aðalhlutverkum. Hún kemur í bíó vestanhafs í október.