David Carradine látinn

Bandaríski stórleikarinn David Carradine er látinn 72 ára að aldri. Hann var hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Kung Fu, en margir muna þó eflaust eftir honum sem Bill úr Kill Bill: Vol. 1 og Kill Bill: Vol. 2 sem Quentin Tarantino leikstýrði.

Leikarinn fannst látinn á hótelherbergi sínu í Bangkok á Taílandi, en hann dvaldi þar í landi við tökur á mynd. Upphaflegar fregnir segja að David hafi hengt sig. Hótelþerna hafi fundið hann sitjandi í slopp með reipi í kringum hálsinn. Þetta vill umboðsmaður leikarans ekki staðfesta.

David var giftur 5 sinnum og sömuleiðis fráskilinn 4 sinnum. Hann skilur eftir sig eiginkonu og fjögur börn. Hann lék í yfir 100 kvikmyndum á ferli sínum.