Dark Knight félagar hittast í Rússlandi

Tveir góðir félagar úr Batman myndinni The Dark Knight Rises munu sameinast á ný næsta sumar, en Gary Oldman hefur skrifað undir samning um að leika í myndinni Child 44 ásamt Tom Hardy. 

Í The Dark Knight Rises lék Oldman Jim Gordon lögregluforingja, en Tom Hardy lék þorparann, Bane.

Child 44 er eftir leikstjórann Daniel Espinosa og er spennutryllir gerður eftir bók Tom Rob Smith. Myndin gerist í Rússlandi á sjötta áratug síðustu aldar, en Hardy leikur liðsmann sovésku herlögreglunnar sem fer að rannsaka raðmorð á börnum, en málið snýst í höndunum á honum og grunur fer að falla á hann sjálfan í málinu.

Noomi Rapace er einnig meðal leikenda, en hún leikur hina ótryggu eiginkonu Hardy. Joel Kinnaman verður samstarfsfélagi Hardy sem hefur tilhneygingu til ofbeldis og morða sjálfur.

Oldman mun leika yfirmann lögreglunnar, sem mun rannsaka bæði morðin sjálf og hegðun Hardys.

Tökur eiga að hefjast í júní nk.

Oldman hefur annars átt mjög annríkt síðustu misserin og næst sést hann á hvíta tjaldinu í njósnamyndinni Paranoia, og á næsta ári koma myndirnar RoboCop, 7. febrúar,  og Dawn Of The Planet of the Apes, 23. maí.