Damon bætti á sig 14 kg af fitu

Matt Damon þurfti að þyngja sig um 14 kíló fyrir hlutverk sitt sem Mark Whitacre í nýrri mynd Steven Soderbergh, The Informant. Damon segir að sér hafi þótt stórskemmtilegt að fitna. „Það var mjög auðvelt að fitna. Og mjög gaman. Ég borðaði einfaldlega allt sem ég sá í nokkra mánuði,“ sagði Damon á fréttamannafundi í Feneyjum þar sem hann er að kynna myndina á kvikmyndahátíðinni þar í borg.

Í myndinni leikur Damon sjúklegan lygara sem starfar í matvælafyrirtæki. Hann ákveður að leka út upplýsingum um það hvernig fyrirtækið á í ólöglegu verðsamráði við erlenda samkeppnisaðila.
Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum: „Það skrýtna er að Whitacre hefur séð myndina og hefur sagt að hún sé mjög nákvæm,“ sagði Sodenbergh, en hann hitti Whitacre aldrei við gerð myndarinnar, öfugt við það þegar hann hitti fyrirmyndina í annarri sannsögulegri mynd sinni, Erin Brockovich, við undirbúning myndarinnar. „Kannski var það bara tímasóun eftir allt saman.“