Cruise verði Green Lantern

Mission: Impossible leikarinn Tom Cruise gæti klæðst ofurhetjuklæðum á næstu misserum, og leikið hlutverk DC Comics ofurhetjunnar Green Lantern, í væntanlegu myndinni Green Lanter Corps, ef eitthvað er að marka fregnir sem nú berast utan úr heimi.

Framleiðandi myndarinnar er Warner Bros.

Stefnt er að frumsýningu kvikmyndarinnar árið 2020, og er sagt að um „leikna endurræsingu“ sé að ræða.  Áður hafði The Lone Ranger og Call Me By Your Name leikarinn Armie Hammer verið nefndur í hlutverk Hal Jordan / Green Lantern.  Ryan Reynolds hefur áður leikið hetjuna í kvikmynd. 

Það var vefsíðan Crazy Days and Nights sem sagði fyrst frá yfirstandandi leit framleiðenda að frægum leikara til að taka að sér aðalhlutverkið í mars sl.  Nú hefur loks verið sagt frá því að það sé enginn annar en Cruise sem framleiðendurnir vilja fá í hlutverkið.

Í fréttinni segir einnig að Cruise hafi sagt að hann muni einungis samþykkja tilboðið ef einu stóru atriði í handriti myndarinnar verði breytt – en það atriðið er þegar Green Lantern er drepinn.

Samstarfsfélagi Cruise í mörgum verkefnum, leikstjórinn Christopher McQuarrie,  sem hefur m.a. skrifað handrit að og leikstýrt tveimur Mission: Impossible kvikmyndum auk Jack Reacher , er einnig nefndur í tengslum við Green Lanter Corps.

Warner Bros hefur enn ekki staðfest neinar fregnir af ráðningum leikara í Green Lantern Corps.