Cloud Atlas leikstjóri hugleiddi sjálfsmorð

Lana Wachowski, sem gerði Matrix myndirnar ásamt bróður sínum Andy, og er núna einn þriggja leikstjóra myndarinnar Cloud Atlas sem væntanleg er í bíó innan skamms, segist hafa hugleitt sjálfsmorð þegar hún var yngri. Lana, sem kemur sjaldan fram opinberlega, sagði frá þessu á fjáröflunarsamkomu mannréttindasamtakanna Human Rights Campaign í San Fransisco um síðustu helgi, þar sem hún var heiðruð.

Í ræðunni ræddi Wachowski um það hvað það var erfitt að vera strákur og alast upp í röngum líkama. Lana greindi opinberlega frá því í ágúst sl. að hér eftir væri hún hætt að heita Larry Wachowski, og væri nú orðin konan Lana Wachowski.

Í ræðunni segist hún hafa einn daginn eftir skóla skrifað sjálfsmorðsbréf til foreldra sinna til að útskýra ákvörðun sína. Síðan ætlaði hún að stökkva fyrir lest, en hætti við þegar maður kom labbandi niður ganginn í lestarstöðinni og horfði stíft á hana.

Cloud Atlas, sem hún leikstýrir ásamt bróður sínum Andy og Tom Tykwer, kemur í bíó í Bandaríkjunum á morgun, föstudag.