20 svalar staðreyndir um The Matrix

Vísindaskáldsagan og „cyberpunk“ hasarmyndin The Matrix var gefin út vestanhafs þann 31. mars árið 1999 og hefur átt góðu gengi að fagna síðan, meðal annars sem ein ástsælasta mynd sinnar tegundar, gríðarlegur brautryðjandi í tæknibrellum og verkið sem kom Wachowski-tvíeykinu hratt á kortið.

Eins og fram kemur átti myndin stórafmæli á síðasta ári og hafa Sambíóin ákveðið að taka hana til sýninga í ljósi eyðufyllinga vegna covid-19.

Fullyrða má að enn þann dag í dag séu íslenskir Matrix-unnendur fjölmargir. Því er upplagt að kanna hversu kunnugir þeir eru nokkrum skrítnum og skemmtilegum staðreyndum á bakvið gerð myndarinnar og þeim áhrifum sem myndin hefur haft.

Þetta eru 20 misþekktar en dúndursvalar staðreyndir um The Matrix

Hinn alræmdi „kóði“ Matrix-heimsins er sagður byggður á sushi-uppskrift.


Hugo Weaving hefur afar sérstakan talanda í myndinni sem margir hafa gert grín að. Hermt er að hann hafi sótt innblástur í fréttaþuli frá sjötta áratugnum í bland við að apa eftir leikstjórum myndarinnar, þeim Andy og Larry Wachowski (nú þekkt sem Lily og Lana).


Meirihluti statista myndarinnar, sérstaklega þeirra sem sjást inni í Draumaheiminum, samanstendur af tvíburum.


Til að spara kostnað við gerð myndarinnar voru notaðar sviðsmyndir úr spennutryllinum Dark City. Sérfræðingar hafa séð ótalmargt sem myndirnar tvær eiga sameiginlegt og lítur út fyrir að sambærilegt DNA renni um æðar beggja sagna.


Til stóð á ákveðnum tímapunkti að Sandra Bullock léki aðalhlutverkið og hefði þá persónan Neo verið endurskrifuð sem kvenhlutverk. Sandra hafnaði að lokum boðinu, augljóslega.


Leonardo DiCaprio, Tom Cruise, Ewan McGregor, Sean Connery, Gary Oldman og Russell Crowe tilheyra einnig löngum lista af fólki sem var boðið að taka þátt í myndinni en taldi það óæskilegt.


Bæði Will Smith og Nicolas Cage höfnuðu aðalhlutverkinu áður en Keanu Reeves var ráðinn.


Keanu Reeves á ekki margar setningar í myndinni. Meirihluti þeirra frasa sem hann fær eru spurningar.


Það er ástæða fyrir því að Véfréttin í sögunni býður Reeves upp á smákökur í myndinni. Þetta er tilvísun í vafrakökur (e. cookies).


Vegabréf Neo (Reeves) í myndinni rennur út þann 11. september 2001.


Hugo Weaving er eini útsendari myndarinnar sem tekur af sér sólgleraugun.


Allir helstu leikarar myndarinnar slösuðust töluvert við tökur á slagsmálaatriðum.


Leikkonan Carrie-Ann Moss tognaði á ökklanum rétt eftir að tökur hófust. Hún ákvað þó að segja engum frá því, til að koma í veg fyrir að framleiðendur myndu skipta henni út fyrir aðra leikkonu.


Moss lék einnig hlutverk í skammlífri sjónvarpsþáttaröð sem hét Matrix, frá árinu 1993. Aðalpersóna þáttanna bar heitið Steven Matrix.


Keanu Reeves notast einungis við skotvopn í fyrstu myndinni í þríleiknum.


Marcus Chong, sem leikur Tank í kvikmyndinni, er ættleiddur sonur alræmda grashaussins Tommy Chong.


The Matrix hefur oft verið sýnd í gegnum árin í fermingarfræðslu á Íslandi, vegna samlíkingar sögunnar við upprisu Krists.


Það tók hálft ár að æfa og undirbúa upphafsatriði myndarinnar.


Stærstu áhrifavaldar Wachowski-systkinanna við gerð myndarinnar voru verk John Woo, myndasagan The Invisibles og japanska teiknimyndin Ghost in the Shell.


Stjörnuleikstjórinn Quentin Tarantino sagði að The Matrix væri önnur af tveimur uppáhalds bíómyndum sínum sem gerðar hafa verið eftir árið 1992 (frá því þegar hann hóf sjálfur feril sem leikstjóri til árins 2009).

Á þessum eftirtektarverða lista var það japanski tryllirinn Battle Royale sem rétt skákaði hana. Sagði Tarantino að Matrix hefði hreppt fyrsta sætið ef framhaldsmyndirnar hefðu aldrei verið gerðar.