Captain Phasma snýr aftur

phasmaÞað kom mörgum á óvart hvað Star Wars persónan Captain Phasma, sem leikin var af leikkonunni Gwendoline Christie, kom lítið við sögu í Star Wars: The Force Awakens, miðað við hvað persónan var áberandi í öllu kynningarefni fyrir myndina áður en hún var frumsýnd.

Menn hafa því velt fyrir sér hvort að dagar Phasma á hvíta tjaldinu séu taldir, en svo er víst ekki…

Christie sjálf staðfesti á Screen Actor´s Guild verðlaunaathöfninni um helgina, að Phasma myndi snúa aftur í Star Wars 8, eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan:

„Ég verð í næstu Star Wars kvikmynd. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem þessu er uppljóstrað,“ sagði hin 1,90 metra háa Game of Thrones leikkona við People tímaritið.

„Ég var mjög spennt. Og ég hef ekki farið leynt með það að ég barðist mikið fyrir því að fá þetta hlutverk,“ sagði Christie, sem er 37 ára gömul. „Og ég varð himinlifandi þegar J.J. Abrams vildi hafa mig með og fá mig í þetta hlutverk sem upphaflega var hugsað fyrir karlmann.“

Hún sagði búningin hafa verið meiriháttar og sagði að það hefði verið frábært að vera kvenkyns Stormtrooper – og vonast til að það muni hafa áhrif á fjölbreytni í hlutverkum sem konum eru boðin í Hollywood.

Einhverjir eru væntanlega að velta fyrir sér hvort að persónan hafi ekki látið lífið í sprengingu í Star Wars, en svo virðist sem búningurinn hafi bjargað henni frá bráðum bana.

Star Wars 8 er leikstýrt af Rian Johnson og með helstu hlutverk fara Daisy Ridley, John Boyega, Adam Driver, Gwendoline Christie og Mark Hamill.

Myndin verður frumsýnd í desember 2017.