Bryan Singer rekinn úr Queen-mynd

Leikstjórinn Bryan Singer, sem er hvað þekktastur fyrir myndir á borð við The Usual Suspects og X-Men, hefur verið rekinn sem leikstjóri myndarinnar Bohemian Rhapsody.

Myndin fjallar um líf söngvarans Freddie Mercury og skartar Rami Malek í aðalhlutverkinu. Mercury var, eins og flestir vita, söngvari hljómsveitarinnar Queen en hann lést árið 1991 af völdum alnæmis.

Singer og Malek eru sagðir hafa átt í miklum deilum á setti myndarinnar. Malek á að hafa kvartað til framleiðanda myndarinnar um að leikstjórinn væri ófagmannlegur og ótraustvekjandi.

Singer hefur einnig verið fjarverandi frá því að tímabundnu hléi á tökum lauk eftir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum. Fjarvera leikstjórans er sögð vera vegna sálræns ástand hans. Að lokum hafi framleiðslufyrirtækið Fox tekið á það ráð að reka Singer.

Allt kapp er nú lagt á að finna nýjan leikstjóra, en aðeins nokkrar vikur voru eftir af tökum myndarinnar. Stefnt er að frumsýningu í desember á næsta ári og mega því framleiðendur engan tíma missa.