Í Hollywood heyrast nú þær sögur að búið sé að bjóða Josh Brolin hlutverk vonda kallsins, illa innrætts vogunarsjóðsstjóra, í framhaldsmynd Wall Street, Money Never Talks, sem Oliver Stone mun leikstýra, en Stone leikstýrði einmitt fyrri myndinni þar sem Michael Douglas fór eftirminnilega með hlutverk hins gíruga og gráðuga Gordons Gekkko.
Brolin hefur ekki staðfest þetta opinberlega en hann er nú við tökur á vestranum Jonah Hex.
Leiðir Brolin og Stone hafa áður legið saman í W., myndinni um George W. Bush, þar sem Brolin lék forseta Bandaríkjanna.
Sagan segir að Javier Bardem hafi upphaflega verið boðið hlutverkið, en hann hafi hafnað því, samkvæmt Deadline Hollywood Daily fréttamiðlinum.
Stefnt er á að myndin fari í framleiðslu mjög fljótlega og það eigi að frumsýna hana á næsta ári. Það er því ekki seinna vænna að fara að klára að ráða í hlutverk!
Michael Douglas mun snúa aftur í hlutverki Gekko, og Shia LaBeouf slæst í hópinn og leikur tilvonandi tengdason peningakallsins. Fréttir herma einnig að Carey Mulligan muni verða með og leika dóttur Gekkos.

