Þrír heiðursmenn á RIFF – myndir og stiklur

rifffffÞað verður mikið um dýrðir þegar RIFF, Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, hefst þann 26. september í Reykjavík, en hátíðin fagnar tíu ára afmæli sínu um þessar mundir.

Eitt af því sem gert verður í tilefni af afmælinu eru að veita þremur leikstjórum verðlaun fyrir framúrskarandi listfengi. Leikstjórarnir koma frá Skandinavíu, Evrópu og Bandaríkjunum, þeir eru á svipuðum aldri og eiga það sameiginlegt að hafa skýra listræna sýn, eins og sagt er í tilkynningu frá RIFF.

Leikstjórarnir eru þeir Svíinn Lukas Moodysson, Frakkinn Laurent Cantet og Bandaríkjamaðurinn James Gray. Allir koma þeir til landsins með eina glænýja mynd í farteskinu og tvær eldri. Þeir munu sitja fyrir svörum á sýningum mynda sinna og halda svokallaða „masterclass“ þar sem þeir munu miðla af viskubrunni sínum fyrir gesti.

RIFF hefst 26. september og stendur til 6. október.

Textinn hér að neðan kemur frá RIFF og inniheldur nánari upplýsingar um leikstjórana og nýju myndirnar þeirra:

Lukas Modysson

lukas modyssonLukas Moodysson er Íslendingum að góðu kunnur enda hafa myndir hans notið mikilla vinsælda hér. Varla er til sá kvikmyndaáhugamaður sem ekki þekkir þrjár fyrstu myndirnar hans; lesbíska unglingadramað Fucking Åmål (1998); hina stórskemmtilegu drama-gamanmynd Tilsammans (2000) og hina hræðilega áhrifamiklu Lilya 4-ever (2002).
Lukas fæddist í Lundi í Svíþjóð árið 1969 og fann snemma hjá sér þörf til að tjá hugsanir sínar með ljóðum. Fyrsta ljóðabókin kom út 1987 þegar hann var 17 ára og næstu árin komu fleiri ljóðabækur og fyrsta skáldsagan. Hann ákvað að snúa sér að kvikmyndagerð til að reyna að ná til fleiri með minna innhverft efni en skáldskapur hans hafði verið fram að því. Leið hans lá í kvikmyndanám í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi og eftir útskrift slípaðist hann sem leikstjóri með þremur stuttmyndum.
Óhætt er að segja að Moodysson hafi slegið rækilega í gegn með sinni fyrstu mynd í fullri lengd, Fucking Åmål. Myndin vakti athygli á leikstjóranum út um allan heim, enda hafði efnið; sannfærandi uppvaxtar- og ástarsaga unglingsstúlkna í sænskum svefnbæ, sterka og alþjóðlega skírskotun. Eftir fyrstu myndirnir þrjár, sem allar gengu mjög vel, tók Lukas þá ákvörðun að gera mynd sem beinlínis fældi fólk frá. Þessi áætlun hans gekk upp með hinni erfiðu tilraunamynd Ett hål i mitt hjärta (2004). Moodysson er þekktur talsmaður vinstri-armsins og femínista í stjórnmálum en er jafnframt kristinn og innilegur trúmaður í þeim efnum. Allir þessir eiginlegar hafa verið að koma betur og betur fram í verkum hans.
Lukas hefur ekki setið auðum höndum síðustu árin, heldur haldið áfram að þróa list sína. Hann hefur sent frá sér tvær kvikmyndir, tilraunamyndina Container (2006) og fyrstu leiknu kvikmyndina á ensku, Mammoth (2009). Þá snéri hann sér aftur að skáldskap með tveimur skáldsögum; Döden & co (2011) og Tolv månader i skugga (2012). Hingað kemur Lukas með glænýja mynd í farteskinu, hina krúttlegu Vi är bäst! Auk þess verða myndirnar Fucking Åmål og Container sýndar.

VIÐ ERUM BESTAR / WE ARE THE BEST / VI ÄR BÄST

Leikstjóri: Lukas Moodysson (SWE) 2013 / 102 min
Þessi krúttlega en frakka mynd sendir okkur aftur til ársins 1982 í Stokkhólmi. Við kynnumst Bóbó, Klöru og Heiðveigu, þremur 13 ára stúlkum sem flækjast um göturnar. Þær eru hugrakkar og seigar og sterkar og veikburða og ringlaðar og skrýtnar og þurfa að sjá um sig sjálfar allt of snemma. Þær hita raspaðar fiskistangir í brauðrist meðan mamma er á barnum og stofna pönk-hljómsveit án nokkurra hljóðfæra, þrátt fyrir að allir segi að pönkið sé dautt.

Laurent Cantet

Laurent CantetFranski leikstjórinn Laurent Cantet fæddist árið 1961 í Melle. Foreldrar hans voru kennarar. Með fyrstu þremur myndunum hans í fullri lengd – Mannauður (Ressources humaines) 1999, Útrunninn (L’Emploi du temps) 2001 og Á leið suður (Vers le sud) 2005 – sýndi Laurent fram á að hann væri hæfur og áhugaverður leikstjóri, en ekki endilega leikstjóri sem varpaði stórum sprengjum. Hann var kominn með orðspor sem svar Frakka við Ken Loach: Áhugaverður leikstjóri, sem var knúinn af samvisku sinni en sem um leið tók pólitískar skuldbindingar sínar léttvægt.
Fjórða mynd Laurents, Milli múra (Entre les murs), breytti miklu fyrir leikstjórann. Eftir að myndin hlaut Gullpálmann á Cannes árið 2008 skaust Laurent með hraði í úrvalsdeild evrópskra leikstjóra. „Það sem verðlaunin og velgengnin í kjölfar þeirra gerðu fyrir mig var frjálsræði til að gera þá mynd sem ég vildi, á þann hátt sem ég vildi. Það var aldrei sagt við mig: Þú verður að hafa nokkur fræg andlit, myndin má ekki vera lengri en 90 mínútur og hún verður að vera hröð. Ekkert svona fékk ég yfir mig.“
Nú fimm árum síðar kemur Tófuljómi – Játningar stelpugengis (Foxfire – Confessions of a Girl Gang), fyrsta mynd í Laurents á ensku. Miðað við fyrstu viðbrögð ætti þessi mynd auðveldlega að treysta sæti leikstórans í úrvalsdeildinni. Auk nýju myndarinnar sýnum við Ressources Humaines og Vers le sud, sem er leikin mynd í svipuðum toga og myndin Paradise – Love, þ.e. hún segir frá eldri konu sem sækir í félagsskap ungra blökkumanna á sólarströnd í fjarlægu landi.
TÓFULJÓMI – JÁTNINGAR STELPUGENGIS / FOXFIRE – CONFESSIONS OF A GIRL GANG

Leikstjóri: Laurent Cantet (FRA) 2012 / 195 min
Verkamannahverfi í smábæ í New York fylki árið 1953: Í samfélagi þar sem karlmenn hafa öll völd ákveður hópur af unglingsstúlkum að bindast fóstsystraböndum: þær mynda Tófuljóma-gengið, leynilegt kvenna-samfélag sem þekkist af logum húðflúruðum á þær. „Tófuljómi“ táknar sætar tófur, en vísar einnig til ljóma, leifturs, elds og eyðileggingar. Stelpurnar reyna að elta ómögulegan draum: að lifa samkvæmt þeirra eigin lögum og reglum. Kvikmyndaaðlögun að margverðlaunaðri metsölubók Joyce Carol Oates.

James Gray

„Líklegast er ég með þráhyggju gagnvart stéttskiptingu. Það kemur líklega til af því að mér leið eins og úrhraki. Þegar maður elst upp verandi bjánalegur krakkavitleysingur í frekar miklu verkamannahverfi sem er við hliðina á mjög auðugum nafla alheimsins þá líður manni eins og utangarðsmanni og fær það á heilann.“
james grayGlæpir, innflytendur og NewYork borg eru síendurtekin minni í myndum James Gray. Hann fæddist í New York árið 1969, ólst upp í Queens-hverfinu og stundaði nám í Sjónvarps- og kvikmynda-háskólanum í Suður Kaliforníu. Hans fyrsta mynd sem leikstjóri kom 1994 þegar hann var aðeins 25 ára, Little Odessa. Myndin fékk góða dóma og vakti mikla athygli. Næsta mynd, The Yards, var valin í keppnina á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2000, sem og We Own the Night árið 2007. Í fjórðu mynd James, hinni Cesars-tilnefndu Two Lovers, vann hann í þriðja sinn með leikaranum Joaquin Phoenix. Stjörnurnar Gwyneth Paltrow og Isabella Rossellini léku einnig í þessu rómantíska drama, sem gerist í Brooklyn hverfinu. Auk nýju myndinarinnar, The Immigrant, sýnum við Two Lovers og Little Odessa.

INNFLYTJANDINN / THE IMMIGRANT

Leikstjóri: James Gray (USA) 2013 / 120 min
Árið 1920 sigla pólsku systurnar Ewa og Magda til New York í leit að Ameríska draumnum. Þegar þær ná Ellis eyju komast læknar að því að Magda er veik og systurnar verða viðskila. Ewu er hleypt út á miskunarlaus stræti Manhattan á meðan systir hennar er sett í einangrun. Þegar hún er ein og yfirgefin, og þráir að hitta systir sína aftur, verður hún fórnarlamb Brunos, viðkunnalegs en ills náunga, sem skýtur skjólshúsi yfir hana og neyðir hana út í vændi. Einn daginn kynnist Ewa frænda Brunos, háttvísa töframanninum Orlando. Hann töfrar hana upp úr skónum og verður fljótlega hennar eina von um að sleppa frá martröðinni sem hún er föst í.