Brad Pitt til íhugunar fyrir All You Need Is Kill

Leikstjóri The Bourne Identity, Doug Liman, hefur verið að undirbúa sci-fi glæpamyndina sína Luna í einhvern tíma: Myndin fjallar um hóp verkamanna sem ákveða að fara til tunglsins að stela óþekktri orkuuppsprettu. Núna hins vegar verður líklega ekkert úr henni þar sem einn af styrkjendum myndarinnar hætti við. Í staðinn hefur framleiðandi hennar, Warner Bros., fengið Liman til að leikstýra mynd byggðri á japanskri manga sögu að nafni All You Need Is Kill og hefur Brad Pitt verið boðið aðalhlutverkið.

Sagan fylgir borgarbúanum Keiji Kiriya sem er sendur í stríð þegar geimverur ráðast á Jörðina. Keiji er drepinn fljótlega í bardaga en fyrir ónáttúrulegar ástæður vaknar hann daginn fyrir stríðið. Fljótlega kemst hann að því að hann er fastur í tímalykkju (a la Groundhog Day) en þar sem í fyrstu er engin sjáanleg leið út úr lykkjunni byrjar hann að æfa sig hvern dag og í kjölfarið verður öflugur stríðsmaður. Í eitt skiptið hins vegar sér hann eitthvað nýtt: Kvenmanns stríðskappa að nafni „Tík Stríðsins“. Hver er hún og hvað þýðir hún fyrir tímalykkju Keijis?

Það væri svo sannarlega áhugavert að sjá Pitt leiða eins metnaðarfullt verkefni og þetta, en líkur eru þó á því að hann muni ekki taka við hlutverkinu. Warner Bros. vilja nefninlega á sama tíma fá hann til að leika aðalhlutverkið í The Mission: Mynd sem fjallar um sex ára björgunarleiðangur til að frelsa fimmtán gísla.