Það er ekki á hverjum degi sem ný íslensk bíómynd er frumsýnd, hvað þá ný íslensk spennumynd. Nú á miðvikudaginn er þó komið að frumsýningu á einni slíkri mynd, Boðbera eftir Hjálmar Einarsson.
Í kynningu frá SAM bíóunum segir meðal annars að hér sé á ferð ein ferskasta íslenska mynd í langan tíma:“. Óhætt er að fullyrða að hér sé á ferð ein ferskasta íslenska kvikmynd sem gerð hafi verið í langan tíma en þótt ótrúlegt megi virðast hélt leikstjórinn myndinni leyndri fyrir Íslendingum sökum þess hversu margir hlutir höfðu átt sér stað í kvikmyndinni sem voru við það að gerast í alvörunni sbr. efnahagsrun o.s.frv. en myndin var tekinn upp fyrir hrun og má því spyrja hvort að leikstjórinn hafi séð eitthvað fyrir sem við hin gerðum okkur enga grein fyrir?,“ segir í tilkynningunni.
Myndin segir frá verkmanninum Páli. Hann heldur að hann sé eins og hver önnur manneskja þar til hann byrjar að upplifa afar óvenjulegar og ljóslifandi vitranir um lífið eftir dauðann. Til að byrja með veit hann ekki af hverju hann fær þessar vitranir, en þegar hann uppgötvar djöfulleg áform sem gerjast í hans eigin samfélagi fer hann að raða saman bútum sem mynda afar skuggalegt púsl.
Á sama tíma hefur mörgum háttsettum aðilum á Íslandi verið sýnd banatilræði og ríkir mikil skelfing í landinu, sérstaklega meðal þeirra sem gætu átt von á slíkri árás. Páll flækist inn í margslungna fléttu meðal valdamikils fólks og einnig sértrúarhópa sem standa að ráðabruggi sem skaðað gæti fjölda fólks og, ef illa færi, valdið algjöru samfélagshruni.
Darri Ingólfsson leikur aðalhlutverkið í myndinni,en hann er þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndaflokknum Mannaveiðar auk þess sem hann fór með lítið hlutverk í mynd Clint Eastwood, Flags of Our Fathers.

