Bond snýr aftur til Istanbúl

Smáatriðin varðandi næstu Bond kvikmyndina, sem er hingað til án titils og er því einfaldlega kölluð Bond 23, eru smám saman að koma heim og saman. Framleiðendur myndarinnar standa nú í viðræðum við yfirvöld Tyrklands um að fá að taka upp opnunaratriðið í Istanbúl, en að sögn eiga u.þ.b. tíu mínútur til korter af myndinni að gerast í borginni. Þetta yrði þá í þriðja skiptið sem útsendarinn eilífi ferðast til borgarinnar, en hann fór þangað í bæði From Russia With Love frá árinu 1963 og The World Is Not Enough frá 1999. „Okkur finnst virkilega eins og við séum að koma heim,“ sagði einn framleiðandi myndarinnar, Michael G. Wilson. Fyrr á árinu stóð til að taka upp hluta myndarinnar í Indlandi og fóru leikstjóri hennar og framleiðendur þangað til að leita að góðum tökustöðum. Hins vegar, vegna óheppilegra atvika , neyddust þau til að hætta við Indlands-tökuna og færa sig til Suður-Afríku í staðinn.

Tökur munu hefjast í Pinewood kvikmyndaveri Bretlands í nóvember næstkomandi og er búist við myndinni 26. október ári síðar hér í Evrópu. Daniel Craig mun taka við titilhlutverkinu í þriðja skiptið ásamt því að Judi Dench mun taka að sér hlutverk ‘M’ í sjöunda skiptið. Ralph Fiennes og Javier Bardem eru báðir tengdir óvinahlutverkunum á einhvern hátt, en hvaða er ekki vitað. Leikstjórinn að þessu sinni verður enginn annar en Óskarverðlaunahafinn Sam Mendes. Það er einnig vert að nefna að þetta mun vera lengsta bil milli Bond mynda í sögu seríunnar án þess að það sé skipt um aðalleikara. Serían verður fimmtug á næsta ári.