Bíóaðsókn í Bandaríkjunum féll um 7,2% á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil á síðasta ári, samkvæmt frétt í bandaríska kvikmyndaritinu Variety. Hinsvegar, ef litið er á heildarmyndina, þá er tilefni til bjartsýni þar sem heildaraðsókn á þessu ári er enn meiri en heildaraðsókn síðasta árs miðað við sama tíma.
Aðsókn á tímabilinu 1. júlí – 30. september skilaði 2,69 milljörðum Bandaríkjadala í kassann eða um 336 milljörðum íslenskra króna. 2,9 milljarða dala tekjur voru hinsvegar af bíómyndum á sama tímabili á síðasta ári.
Heildartekjur af bíóaðsókn í fyrra í Bandaríkjunum voru 10,17 milljarðar Bandaríkjadala, sem var minna en árið 2009 en aðsóknin þá skilaði 10,6 milljörðum dala, sem var met.
The Dark Knight Rises, The Amazing Spiderman og Ice Age: Continental Drift eru þrjár tekjuhæstu myndirnar á þriðja ársfjórðungi þessa árs.
Fjórði ársfjórðungur hefur byrjað vel með myndum eins og Taken 2 og Hotel Transylvania, og væntanlegar eru myndir eins og Paranormal Activity 4 og Cloud Atlas sem ættu að skila inn einhverjum centum.
Ekki má gleyma Bond gamla, í myndinni Skyfall, lokamyndinni í Twilight seríunni, Breaking Dawn, Rise of the Guardians, Life of Pi, Silver Linings Playbook og Red Dawn.
Jólin líta líka þrælvel út með sjálfan Hobbitann þar fremstan í flokki, The Hobbit: An Unexpected Journey, Zero Dark Thirty, Django Unchained og svo auðvitað Vesalingarnir, eða Les Miserables.