Bílarnir brunuðu beint á toppinn

Bílateiknimyndin Cars 2 brunaði beina leið á topp aðsóknarlista kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum um helgina, þrátt fyrir misjafnar viðtökur gagnrýnenda. Sögðu sumir þeirra, að því er segir í frétt frá Reuters fréttastofunni, að hér væri á ferðinni versta Pixar teiknimyndin frá upphafi.
Talið er að tekjur af myndinni um helgina, í Bandaríkjunum og Kanada samanlagt, nemi um 68 milljónum Bandaríkjadala.
Fyrri myndin, Cars, þénaði 60 milljónir dala á sinni frumsýningarhelgi árið 2006, eða 72 milljónir þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar á verði aðgöngumiða. Cars 2 hefur það reyndar fram yfir fyrri myndina, að geta rukkað hærra gjald vegna þrívíddarinnar, sem hún er í.
Eins og fyrr sagði þá fékk myndin heldur óblíðar viðtökur gagnrýnenda, sem hingað til hafa lofsungið flest það sem frá Pixar stúdíóinu kemur. Til dæmis fékk Pixar myndin Toy Story 3, sem var frumsýnd á síðasta ári og þénaði 110 milljónir dala á frumsýningarhelginni, eina bestu gagnrýni allra mynda á síðasta ári.
Cars 2 er 12 myndin í röð frá Pixar sem fer beint í fyrsta sæti aðsóknarlistans á frumsýningarhelgi sinni, en sigurgangan hófst með Toy Story árið 1995.
Utan Bandaríkjanna komu 42,9 milljónir dala í kassann, og samanlagt eru þá tekjur af myndinni orðnar 101,9 milljónir dala.

Í öðru sæti um helgina lenti gamanmyndin Bad Teacher með Cameron Diaz, með 31 milljón dala í tekjur.
Toppmynd síðustu viku, Green Lantern, féll niður í þriðja sætið með 18,4 milljónir dala í tekjur. Myndin er allt í allt komin í 89,3 milljónir dala í Bandaríkjunum.

Báðar nýju myndirnar á listanum, Cars 2 og Bad Teacher, stóðu sig betur en spáð hafði verið. Cars 2 var spáð um 60 milljón dölum í tekjur, og Bad Teacher um 25 milljónum .

Í Cars 2 tala þeir Owen Wilson og Larry the Cable Guy fyrir aðalbílana, Lightning McQueen og dráttarbílinn Mater, en þeir tveir lenda í njósnaævintýri, þegar þeir eru á alþjóðlegu kappaksturferðalagi.

Næsta helgi er þjóðhátíðardagshelgi í Bandaríkjunum, og þá verður risamyndin Transformers: Dark of the Moon í boði, en hún kemur í IMAX risabíó næsta þriðjudag, og í venjuleg bíó á miðvikudag. Um miðjan júlí kemur svo lokamyndin í Harry Potter myndaflokknum; Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2, þannig að bíósumarið er bara rétt að byrja.