Náðu í appið
47
Bönnuð innan 6 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Cars 2 2011

(Bílar 2)

Frumsýnd: 22. júlí 2011

Going where no car has gone before.

106 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 39% Critics
The Movies database einkunn 57
/100

Í Cars 2 endurnýjum við kynnin við kappaksturbílinn síhressa, Lightning McQueen, en hann og hinn trausti vinur hans, dráttartrukkurinn skrautlegi Mater, leggja nú upp í sína fyrstu ferð út fyrir Bandaríkin, þar sem McQueen á að keppa í heimsmeistarkeppninni í kappakstri, en þrjú mót verða haldin til að komast að því hver er hraðasti kappakstursbíll í... Lesa meira

Í Cars 2 endurnýjum við kynnin við kappaksturbílinn síhressa, Lightning McQueen, en hann og hinn trausti vinur hans, dráttartrukkurinn skrautlegi Mater, leggja nú upp í sína fyrstu ferð út fyrir Bandaríkin, þar sem McQueen á að keppa í heimsmeistarkeppninni í kappakstri, en þrjú mót verða haldin til að komast að því hver er hraðasti kappakstursbíll í heimi. Fara þau fram í Japan, á Ítalíu og á Englandi og ætlar McQueen sér að sjálfsögðu ekkert annað en sigur. Hins vegar láta vandamálin fljótt á sér kræla. Mater fer að fá meiri áhuga á njósnastarfsemi en honum er hollt, á meðan McQueen þarf að kljást við erfiðari andstæðinga en áður án nokkurrar hjálpar, sem setur vináttu þeirra að auki í nokkra hættu. Ná kumpánarnir að komast í gegnum vandræði sín áður en titillinn er tapaður fyrir McQueen og Mater verður pikkfastur í heimi alþjóðanjósna?... minna

Aðalleikarar

Þokkaleg dótaauglýsing
Áður en fjallað er um Cars 2 er eiginlega nauðsynlegt að útskýra aðeins hvernig hún varð til og hvers vegna. Tilvist hennar lýsir sér nokkurn veginn svona:

Fyrri Cars-myndin frá 2006 var (af óskiljanlegum ástæðum) einhvers konar draumaverkefni hjá John Lasseter, einum af stofnendum Pixar-kompanísins, þrátt fyrir að vera samsuða af Days of Thunder og Doc Hollywood og hreint út sagt lyktandi af klisjum alla leið. Það eina sem myndin gerði nýtt var að breyta hverri einustu lífveru í bifreið. Ég gerði fyrst þau mistök að hugsa út í smáatriði varðandi þennan heim (og hvað það er sem heldur köggunum lifandi!) en svo fattaði ég að Lasseter væri í rauninni bara að koma með eitthvað sætt, saklaust, lærdómsríkt og litríkt handa börnunum. Persónulega finnst mér samt nokkuð skondin tilhugsun að einn helsti frumkvöðull teiknimyndafyrirtækisins sem ég dái útaf lífinu sé sísti leikstjórinn af öllum þeim sem hafa tæklað þar mynd í fullri lengd.

Nánast þrír af hverjum fjórum kvikmyndaáhugamönnum hafa hingað til sagt að Cars sé slakasta Pixar-myndin. Það gæti breyst núna með Cars 2 þó svo að það sé ekki alveg mín skoðun. Allavega, þátt fyrir að vera hæg í keyrslu þá græddi fyrri bílamyndin alveg sjokkerandi upphæðir peninga á leikföngunum sem voru framleidd. Krakkar eru bilaðir í þau! Disney hefur hoppað hæð sína og einhvern veginn náðist það að sannfæra Pixar-menn að vippa upp framhaldsmynd. Fyrirmælin hafa sennilegast verið þau að gera myndina hraðari, fjölbreyttari og viðburðarríkari. Skyndilega er hasar farinn að ráða ríkjum og séð var svo sannarlega til þess að nógu mikið af karakterum sæjust svo hægt væri að gera fleiri leikföng. Það er líka ein lykilástæða sem skýrir hvers vegna Mater – öskrandi sveitalubbastaðalímynd – er gerður núna að aðalpersónunni. Hann er vinsælastur.

Satt að segja lít ég á Cars 2 sem afar merkilega mynd fyrir Pixar-teymið. Hún er fyrsta "sell-out" myndin þeirra!

Myndin hefur tvennt sem kemur í veg fyrir að hún gæti nokkurn tímann talist léleg. Tölvuvinnan er hátt í mögnuð og myndin er stútfull af hugmyndaríkum hasarsenum, sem byggjast samt í kringum sama brandarann aftur og aftur (ímyndið ykkur James Bond-mynd þar sem Bond-bíllinn kemur í stað persónunnar). Stundum er myndin tussuskemmtileg enda ofboðslega orkurík (sem verður aldrei hægt að segja um hina) og einstaka sinnum fyndin, en svo kemur alltaf veikasti hlekkurinn og stígur inn á sviðið: Larry the Cable Guy, eða nánar til tekið röddin hans.

Kannski er ég enn bara ekki búinn að fyrirgefa honum sársaukann sem fylgdi myndunum Witless Protection og Health Inspector (en hana sá ég ekki alla) en Larry fer oft rosalega í mig. Mater er saklaus og ágætur karakter svosem, sérstaklega í skömmtum, en hann er ekkert meira en aukapersóna því hann er alltof einhæfur. Við höfum líka nógu oft séð söguna um glórulausa fábjánann sem flækist inn í njósnaaðgerðir og tekst að blekkja alla í kringum sig án þess að vita nokkuð hvað hann er að gera. Sem betur fer er nóg um að vera í myndinni til að gera Mater ekki að þátttakanda í hverri einustu senu.

En þrátt fyrir einhæfa aðalpersónu og takmarkaðan metnað er erfitt að líka illa við Cars 2. Það er auðvelt að fara í fýlu út í hana fyrir að vera ekki jafn snjöll og The Incredibles eða Wall-E, eða jafn fyndin og Up og Toy Story-myndirnar. Ég læt það hins vegar í friði. Þó svo að ástæðurnar tengjast varningasölu þá finnst mér alltaf gaman að sjá framhald sem gerir öðruvísi hluti en forveri sinn, og í þessu tilfelli er hraðinn og tónninn miklu betri. Myndin er nógu lífleg og vel unnin til að tryggja meðalgott skemmtanagildi og ég er tiltölulega viss um að börn eigi eftir að elska hana. Og ef þú vilt sjá eitthvað sem kætir ungana þína án þess að deyja úr leiðindum sjálf(ur), þá er þetta miklu betri kostur en margt annað. Þetta er kannski ekki Pixar á sínum besta degi, en Pixar engu að síður.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir

Myndir í sömu seríu

Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn