Þegar ég lít til baka yfir árið 2007 þá finnst mér það óhjákvæmilegt að búa til smá topplista yfir það besta sem ég sá á árinu.
Það má segja að þetta kvikmyndaár hafi ekki verið neitt dúndur, lítið
sem bar af í mínum huga og Hollywood voru ekki að hrista neitt annað
fram úr erminni heldur en framhaldsmyndir, og flestar þeirra varð ég
fyrir vonbrigðum með (Spider-Man 3 einhver?).
Þó svo að þetta bíóár hafi verið miðlungsgott í besta falli þá
er greinilegt að íslenskur kvikmyndaiðnaður er í gríðarlegri
uppsveiflu. Standardinn hefur hækkað gríðarlega og myndir eins og
Veðramót, Foreldrar, Syndir Feðranna og þættirnir Næturvaktin og Pressa
hafa litið dagsins ljós. Það er því mikill þrýstingur á komandi
íslenskar kvikmyndir að hysja upp um sig buxurnar og viðhalda þessum
standardi. Fyrir einstaklingsframtak sitt á líðandi kvikmyndaári ætla
ég að taka mér það bessaleyfi að tilnefna Ragnar Bragason sem Íslenskan Kvikmyndamann Ársins,
sem felur þó ekki í sér neitt annað en titilinn í verðlaun! Hann
leikstýrði nú síðast frábæru áramótaskaupi og sópaði að sér
Edduverðlaunum með tilheyrandi fögnuði.
Þegar ég hugsa um myndirnar sem ég sá á líðandi ári þá verð ég að segja
að það var engin ein mynd sem stóð greinilega uppúr hópnum, og þegar
þið lesið val mitt á mynd ársins þá eigiði væntanlega eftir að vilja að
lesa yfir hausamótunum á mér. Ég valdi Children of Men
sem mynd ársins 2006 í fyrra en ég tók eftir því að blaðamaður hjá
Morgunblaðinu fór fögrum orðum um hana sem eina af stórmyndum ársins
2007, en hann er greinilega ári á eftir okkur hinum. Listinn sem
hér kemur er þó eingöngu mitt einstaklingsálit en alls ekki álit
annarra umsjónarmanna eða notenda kvikmyndir.is og er á engan hátt
samansafn einhvers lista yfir vinsælustu myndir ársins.
5.Pan’s Labyrinth
Hún var framleidd árið 2006 en kom í bíó á Íslandi í febrúar 2007 þegar
Græna Ljósið flutti hana inn. Hún kemst í 3.sætið vegna sjónrænnar
snilldar og frábærs ævintýrafílings. Allir sem hafa séð hana eru
væntanlega sammála mér.
4.Sigur Rós – Heima
Ég verð seint talinn einhver dúndur Sigur Rósar aðdáandi en þegar ég sá
þessa mynd á opnunarhátíð RIFF þá fannst mér þetta klárlega besta
tónlistarmynd sem ég hef séð, það litla sem fór í taugarnar á mér að
hún er gerð algerlega af erlendum aðilum, er á ensku og virðist reyna
að markaðssetja íslenska náttúru, og ég hef takmarkaða þolinmæði fyrir
þannig tilburðum. Þrátt fyrir þetta kem ég henni í 4.sætið, mér sjálfum
til einhverjar furðu!
3.300
Ein mesta testosterónsprauta síðari ára í mynd sem stóðst einar almestu
væntingar sem ég hef haft til myndar síðan ég sá Sin City. Alger snilld!
2.Superbad
Það þarf mikið til þess að ég setji gamanmynd í 2.sætið yfir toppmyndir
ársins 2007, en Superbad er algert legend in the making. Ég datt inná
forsýningu myndarinnar eftir að það var uppselt á The Bridge í
Regnboganum á sínum tíma og ég þurfti því að bruna yfir í Smárabíó og
datt inní byrjunarkredits listann sem stærir sig af einhverri
baneitruðustu tónlist sem ég hef heyrt! Getur einhver reddað mér
soundtrackinu?! Að mínu mati steypir myndin Anchorman af stóli sem
fyndnasta mynd síðari ára en piss og kúk húmorinn nær að njóta sín til
hins ýtrasta. Alger snilld og tilvísanirnar í myndina ná að lifa fersku
lífi næstu árin.
1.Sunshine
Ég veit, ég veit. Það eru margir sem loka vafrananum þegar þeir lesa
þetta val mitt eða í besta falli yppa öxlum yfir því og spyrja sig af
hverju í ósköpunum ég set þessa mynd í fyrsta sætið. Þegar ég sá þessa
mynd fyrst þá vissi ég ekki beint hvað ég átti að halda, og það er
óhætt að segja að enginn annar hafi pælt jafn mikið í þessari mynd en
ég. Þetta val kemur mér eiginlega sjálfum á óvart þar sem ég er alls
enginn brjálaður sci-fi aðdáandi, en hvernig Danny Boyle nær að flétta
saman sálfræðilega og sjónlega veislu á þennan hátt finnst mér ótrúlegt
(og nei ég þurfti ekki mikla þolinmæði til að meika endinn!). Samansafn
af algerlega óþekktum leikurum sem standa sig með mismikilli prýði
finnst mér þó ekki hafa mikil áhrif á myndina. Eftir að ég keypti
myndina á DVD og hef horft á hana örfáum (vægast sagt) sinnum í viðbót
þá næ ég að meta hana betur í hvert sinn. Geriði ykkur grein fyrir því
að þessi mynd var gerð fyrir algert slikk?!?
Það má því segja að árið hafi verið tiltölulega viðburðarríkt en
áhyggjuefni er að bíóhátíðirnar hafa aldrei náð eins lítið til mín, RIFF
kom með pompi og prakt inná þennan markað fyrir einhverjum árum síðan
og kom með alveg ágætar myndir í ár, en aukaviðburðirnir voru vægast
sagt hlægilegir. Sundbíóið svokallaða lýsti sér af því að Jaws var
spiluð á stigatöflunni í ömurlegum gæðum og í bílabíóinu var myndin
spiluð á grænum bakgrunn(er það eitthvað grín?) með hljóðið sem
spilaðist á eftir myndinni sjálfri. Það verður að laga þessa hluti
þegar hátíðin verður sett aftur í ár. Græna Ljósið er hins
vegar klárlega sigurvegari ársins þegar litið er til þess að þeir eru
alltaf með eitthvað flott á boðstólnum og grunnreglurnar þeirra (ekkert
hlé, engir miðar seldir eftir að myndin byrjar og færri auglýsingar)
eru mér að skapi! Ég ætla hins vegar að grátbiðja Græna Ljósið um að
hafa bíódagana í Háskólabíó líka á næsta ári, ég man ekki hversu oft
það var uppselt á myndirnar í Regnboganum í ár. Það er því greinilegt
að bíódagarnir eru að sprengja utanaf sér.
Það voru einhverjar myndir sem ég vill segja að hafi verið rusl ársins
en þar ber helst að nefna Harry Potter 5, Spider-Man 3, Pirates 3 og
Zodiac(já, ég sagði Zodiac), Elizabeth: The Golden Age ásamt fleirum.
Aðrar myndir sem voru frábærar á árinu eru m.a. Little Miss Sunshine,
Away From her, Hot Fuzz, Mýrin, Knocked Up, Breach ásamt fleirum.
Ég vill þakka öllum sem lásu þennan litla „annál“ og endilega, ef þið
eruð ósammála mér á einhvern eða allan hátt þá er spjallborðið alltaf
opið.

