Berry og McConaughey á fyrstu plakötum úr Mud og The Call

Fyrstu plakötin eru komin fyrir tvær myndir sem við höfum verið að tala um hér á síðunni undanfarið. Annarsvegar er það nýjasta mynd Matthew McConaughey, Mud, og hinsvegar er það nýjasta mynd Halle Berry, The Call. 

Mud fjallar um tvo 14 ára stráka, Ellis og Neckbone. Þeir fara í rannsóknarleiðangur út í eyju í Mississippi ánni eftir að hafa heyrt sögur af báti sem lenti uppi í tré eftir flóð í ánni. En í ljós kemur að einhver annar hefur verið á undan þeim, og fljótlega eru strákarnir flæktir í líf manns að nafni Mud. Mud fer að segja sögur af sjálfum sér, en gæti verið hættulegur flóttamaður. Sjálfur segist hann eingöngu vilja lifa rólegu lífi með konunni sem hann elskar, Juniper, en hópur lögreglumanna sem eru á hælunum á honum benda til þess að eitthvað gruggugt sé á seyði. Strákarnir ákveða að hjálpa Mud á flóttanum og að finna aftur kærustuna, Juniper.

The Call fjallar um konu sem vinnur við að svara í neyðarnúmerið 911. Hún þarf að horfast í augu við morðingja úr fortíð sinni þegar hún gerir mistök sem verða völd að dauða unglingsstúlku. Hún uppgötvar að sami morðingi sem drap stúlkuna er aftur á ferð skömmu síðar, og þá reynir hún að bæta fyrir mistökin.

Sjáðu plakötin hér fyrir neðan: