Banks skammast sín

Næsta verkefni leikkonunnar Elizabeth Banks verður að skammast sín, en upptökur á myndinni Walk of Shame hefjast í janúar í Los Angeles.

Banks er þekkt úr myndum eins og Pitch Perfect, The Hunger Games, What to Expect When You’re Expecting og Man on a Ledge.

Leikstjóri verður Steven Brill sem einnig skrifar handritið. Hann hefur áður leikstýrt  Drillbit Taylor, Without a Paddle og Mr. Deeds.

Í myndinni leikur Banks metnaðargjarnan fréttaþul hjá sjónvarpsstöð í Los Angeles, sem klúðrar prufuupptöku fyrir draumastarfið. Hún ákveður að sleppa algjörlega fram af sér beislinu og djammar fram í rauðan dauðann alla nóttina og vaknar í rúmi með ókunnugum manni, peningalaus, bíllaus, minnislaus og með skilaboð á símanum frá umboðsmanninum sem segir henni að hún hafi í raun og veru komið komið best út í prufunum.

Nú þarf hún að feta sig skömmustuleg í gegnum slæmt hverfi, til að komast í sjónvarpssal fyrir kl. 17.