Ætlar ekki að sykurhúða Litlu hafmeyjuna

sofiaSofia Coppola mun leikstýra nýrri kvikmynd eftir klassísku sögunni um hafmeyjuna Aríel. Myndin mun vera sönn upprunalegu sögu H. C. Andersen, en eins og flestir vita þá sykurhúðaði Disney söguna í teiknimyndinni, Litla hafmeyjan, sem var gerð árið 1989.

Handritið hefur verið í vinnslu í nokkur ár undir stjórn Abi Morgan (Sex Traffic, Shame). Handritshöfundurinn segir að upprunalega sagan sé mögnuð og að Sofia sé hárrétt manneskja í starfið.

Þrátt fyrir að vera virt innan geirans þá hafa fyrri verk Coppola ekki náð flugi meðal almennings, fyrir utan Lost in Translation, með Bill Murray í aðalhlutverki.

Sofia, sem er dóttir kvikmyndaleikstjórans Francis Ford Coppola, hefur auk þessara mynda einnig leikstýrt myndum eins og The Virgin Suicides og Marie Antoinette. Seinasta mynd hennar, The Bling Ring, fjallaði um kunningjahóp sem langaði í ríkidæmi og ákvað að stytta sér leiðina með því að brjótast inn hjá frægu fólki og ræna það.