Aðdáendur ofurhetjunnar Wolverine hoppuðu hæð sína í gleði þegar kom í ljós að leikstjórinn Darren Aronofsky tæki að sér næstu mynd um kappann með klærnar. En nú rétt í þessu sendi Aronofsky frá sér yfirlýsingu þar sem hann skýrir frá því að hann muni ekki leikstýra myndinni.
„Það kom í ljós að tökur á The Wolverine myndu halda mér í útlöndum í heilt ár. Ég get því miður ekki farið frá fjölskyldu minni í svo langan tíma, og verð því að segja mig úr framleiðslunni.“ sagði Aronofsky, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir Black Swan. „Það syrgir mig að geta ekki fylgt myndinni til enda, en ég hef fulla trú á handritinu, Hugh [Jackman] og öllum sem koma að henni.“
Myndin heldur þó ótrauð áfram í framleiðslu og búist er við að leit að nýjum leikstjóra taki ekki langan tíma. Handritið að myndinni skrifaði Christopher McQuarrie, sem skrifaði The Usual Suspects, og Hugh Jackman snýr aftur sem eðaltöffarinn Wolverine.
– Bjarki Dagur