Argo ljósmyndir birtast


Fyrir rúmu ári var tilkynnt að þriðja kvikmynd Ben Afflecks í leikstjórastólnum yrði sannsögulegi tryllirinn Argo. Ekki fyrir löngu birtist fyrsta ljósmyndin af Affleck í aðalhlutverkinu, en í dag var sú seinni gefin út og fáum við að sjá myndarlegan leikarahóp kvikmyndarinnar í klæðaburði áttunda áratugsins sem myndin gerist á.
Chris Terrio skrifaði handritið að myndinni eftir að hann las grein í tímaritinu Wired árið 2007, en greinin fjallaði um raunverulegu atburðina sem áttu sér stað í Íran árið 1979.

Byltingin sem geysaði yfir Íran frá árunum ’78 til ’79 varð til þess að hópur af nemendum Íslamismans tóku yfir Bandaríska sendiráðið í Tehran og neyddust sex stjórnmálamenn til að leita hælis í húsum John Sheardown og kanadíska sendiherrans Ken Taylor. Þar dúsuðu þeir þangað til að CIA greip inn í og upphófst þvílík björgunaraðgerð til að koma stjórnmálamönnunum út úr landinu.
Við hjarta aðgerðarinnar var framleiðsla á gervi-kvikmynd að nafni Argo.

Ben Affleck leikur sérfræðing CIA í dulargervum, Tony Mendez, á meðan Bryan Cranston leikur annan útsendara CIA, Jack O’Donnell. John Goodman mun fara með hlutverki förðunarmeistarans John Chambers, sem vann m.a. Óskarsverðlaun fyrir upprunalegu Planet of the Apes, og Alan Arkin leikur kvikmyndaframleiðandann Lester Siegel.

Tökum á myndinni lauk í nóvember síðastliðnum og er eftirvinnslan á henni í hámarki, enda hefur hún settan útgáfudag; þann 14. september næstkomandi.