Aquaman tekur völdin – Fyrsta stikla!

Aquaman er ein þekktasta ofurhetjan í DC Comics ofurhetjuheiminum, þó að auðvitað séu ýmsir umtalaðri, eins og Superman, Batman og Wonder Woman. Árið 2016 markaði ákveðin þáttaskil hjá hetjunni, þegar Aquaman kom fram í gestahlutverki í Batman v Superman: Dawn of Justice. Næst fengum við að sjá hann í Justice League, og nú í vetur er von á sérstakri mynd um kappann, en fyrsta stiklan var frumsýnd í dag á Comic Con afþreyingarhátíðinni í San Diego sem nú stendur sem hæst.

Í Justice League fengum að kynnast fortíð Arthur Curry, öðru nafni Aquaman, en þeir sem ekki þekkja til persónunnar, þá tekst framleiðendum vel upp að sýna uppruna hans í stiklunni.

Móðir hans var drottning úr Atlantshafinu að nafni Atlanna, sem Nicole Kidman leikur, og faðir hans var vitavörður að nafni Thomas, sem Temuera Morrison leikur. Honum, og flestum öðrum, til mikillar undrunar þá kemst hann að því að hann getur stjórnað sjó og hafi og talað við sjávardýrin.

Spólað fram í tímann þá er Arthur nú farinn að tukta til vopnaða óþokka í kafbáti, en fljótlega fáum við að kynnast hálfbróður hans, Orm, sem er þekktur undir nafninu Ocean Master, og er leikinn af Patrick Wilson. Hann hefur í hyggju að lýsa yfir stríði ofansjávar, og þar með þarf Arthur að horfast í augu við eigin ábyrgð og skyldur, og taka völdin neðansjávar.

Eins og sjá má í stiklunni gerist greinilega drjúgur hluti kvikmyndarinnar neðansjávar, sem er mikill töfraheimur að því er virðist.

Leikstjóri Aquaman er Saw og Conjuring leikstjórinn James Wan, en myndin kemur í bíó 21. desember.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: