Aparnir vinsælir um helgina

Forfeður okkar mannanna, aparnir, voru stjörnur helgarinnar í bíóheimum í Bandaríkjunum, en myndin Rise of the Planet of the Apes, tyllti sér á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum um helgina, og skaut þar með hinum smávöxnu og bláleitu strumpum ref fyrir rass sem og geimverunum í Cowboys and Aliens, en sú mynd var toppmynd síðustu helgar í Bandaríkjunum. Rise of the Planet of the Apes þénaði 54 milljónir Bandaríkjadala í bandarískum og kanadískum kvikmyndahúsum, og á alþjóðavísu þénaði myndin 77,4 milljónir dala samanlagt.

The Rise of the Planet of the Apes er mynd hlaðin tæknibrellum og var þónokkuð dýr í framleiðslu. Um er að ræða forsögu hinnar sígildu myndar Planet of the Apes frá árinu 1968, og fjallar um erfðafræðilega breytta apa sem gera byltingu.

Aðalhlutverk í myndinni leikur James Franco ásamt John Lithgow.
Tekjur af sýningu myndarinnar um helgina voru umfram væntingar, en myndin kostaði um 93 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu.
Það sem hjálpaði til við að fá fólk til að flykkjast á myndina í bíó voru jákvæðar viðtökur gagnrýnenda ásamt stórkostlegum tæknibrellum, ásamt góðum dramatískum söguþræði, að því er Chris Aronson, yfirmaður hjá dreifingaraðilanum 20th Century Fox sagði Reuters fréttastofunni.

Í öðru sæti um helgina var The Smurfs, eða Strumparnir, en myndin hefur gengið vonum framar, að því er Reuters fréttin segir. 21 milljón dala kom í kassann um helgina í Bandaríkjunum og Kanada og 45,2 milljónir í öðrum löndum.
Cowboys and Aliens, vísindaskáldsögu vestri með stórleikurum eins og Daniel Craig í aðalhlutverkum, endaði í þriðja sæti með 15,7 milljónir dala í tekjur, á annarri viku á lista.

Auk The Rise of the Planet of the Apes var líkamsskiptimyndin The Change Up frumsýnd um helgina, en hún endaði í fjórða sæti aðsóknarlistans, og var í neðri mörkum væntinga samkvæmt Reuters, með 13 milljónir dala í tekjur.
Í myndinni leikur Jason Bateman giftan föður sem skiptir um líkama við einhleypan vin sinn sem leikinn er af Ryan Reynolds.
Myndin kostaði 52 milljónir dala í framleiðslu, og 59% gesta voru konur.
Captain America: The First Avenger endaði í fimmta sæti á sinni þriðju viku á lista með 13 milljónir dala í tekjur.