Náðu í appið
Öllum leyfð

The Smurfs 2011

(Strumparnir)

Frumsýnd: 10. ágúst 2011

Smurf happens

103 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 21% Critics
The Movies database einkunn 30
/100

Lífið gengur sinn vanagang í heimi Strumpanna, þeir iðjusömu vinna, þeir yfirborðskenndu stara í spegilinn og þeir stjórnsömu reka hina áfram. Hver og einn hefur sitt hluverk. Það hefur Kjartan galdrakarl líka, hans er að elta Strumpana og hræða úr þeim líftóruna. Einn daginn finnur hann Strumpaþorpið og eltir þá út í skóg. Strumparnir skipta liði... Lesa meira

Lífið gengur sinn vanagang í heimi Strumpanna, þeir iðjusömu vinna, þeir yfirborðskenndu stara í spegilinn og þeir stjórnsömu reka hina áfram. Hver og einn hefur sitt hluverk. Það hefur Kjartan galdrakarl líka, hans er að elta Strumpana og hræða úr þeim líftóruna. Einn daginn finnur hann Strumpaþorpið og eltir þá út í skóg. Strumparnir skipta liði og dreifast um allt en Klaufastrumpur villist inn í forboðinn helli og nokkrir aðrir Strumpar elta. Þar sem tunglið er blátt opnast töfragöng á milli heima, þess sem er innan hellisins og okkar heims, nánar tiltekið Central Park í New York. Þeir staulast úr töfraheimi sínum inn í raunveruleikann eins og við þekkjum hann. Rétt um þrjú epli á hæð og villtir í Stóra Eplinu, þurfa Strumparnir að strumpast til að taka á honum stóra sínum. Þeir fá húsaskjól hjá hjónunum Patrick og Grace Winslow þar sem þeir leggja á ráðin um hvernig þeir komast aftur til síns heima, en það verður að gerast áður en Kjartan finnur þá.... minna

Aðalleikarar

Rétt strumpar yfir meðalmennskuna
Það eru tveir ákveðnir Hollywood-leikstjórar, sem sérhæfa sig annað hvort í pirrandi gamanmyndum eða ennþá verri fjölskyldumyndum, sem hafa farið í mínar fínustu taugar núna í ansi mörg ár. Annar þeirra er Shawn Levy (hann bar m.a. ábyrgð á Big Fat Liar, Pink Panther-endurgerðinni og Night at the Museum 1 & 2) og hinn er Raja Gosnell. Hinn síðarnefndi er þó reyndar ögn skárri en að megnu til framleiða þeir dúnmjúkar skítahrúgur sem ætlaðar eru smábörnum eða fólki með svo lága greind að þeim finnist allt áreynslulaust grín vera fyndið. Það skásta sem ég get sagt um Gosnell er að honum hefur tekist að batna frá því þegar hann byrjaði, en alveg sama hversu mikla sápu ég nota þá tekst mér ekki að þvo af mér óhreinindin sem voru t.d. Home Alone 3 eða Big Momma’s House. Ég óttaðist innilega að þessi maður, með allan sinn "listræna" metnað, myndi eyðileggja fyrir mér það sem ég hélt mikið upp á í æsku.

Þegar ég var smákrakki heyrðist jafnoft í Ladda í sjónvarpinu mínu og Leiðarljósi (uppáhald múttu í denn), ef ekki oftar. Venjulega horfði ég alltaf á bíómyndir og þætti á ensku en Strumparnir voru algjör undantekning. Ég horfði milljón sinnum á þessar teiknimyndir og tel þær í dag vera langt frá því að vera með því vandræðalegasta sem ég ólst upp við. Þetta er fínasta barnaefni með góðri siðferðisvitund og skrautlegum karakterum með fjölbreytta persónuleika. Mjög saklaust og sykrað. Ekkert að því. Í rauninni get ég notað alveg sömu lýsingu á bíómyndina. Það sem kemur hins vegar í veg fyrir risastóra nostalgíusprengju í mínum augum (fyrir Ladda-leysið) er ógurlega amerískur sykurpúðatónn og einhver klisjukenndasti söguþráður sem til er. Þessi ofnotaða "fish out of water/við-verðum-að-komast-aftur-heim" saga er næstum því jafngömul og Strumpafyrirbærið sjálft, og það að myndin gerist að megnu til í New York er ekki beinlínis að hlaða hana frumleika.

The Smurfs er samt mörgum skrefum frá því að vera óáhorfanleg bíómynd. Hún er kannski refsidómur fyrir þá sem hafa lítið þol fyrir öllu saklausu og sætu en við hliðina á öðrum svokölluðum "hybrid" myndum sem sameina alvöru leikara við tölvuteiknaðar skrípafígúrur (t.d. Alvin and the Chipmunks, Hop eða Yogi Bear!) þá er hún skylduáhorf. Þó svo að myndin sé oft yfirdrifin og barnaleg þá passar hún upp á það að eldra liðið fái stundum eitthvað af bröndurum fyrir sig (skondið að sjá þarna litla tilvísun í Brokeback Mountain). Síðan verð ég alltaf jafn feginn þegar ég sé barnamynd af þessari týpu sem tekst að missa sig ekki í einhverjum prumpuhúmor og það hjálpar heilmikið til að karakterarnir hérna skulu ekki bara vera þolanlegir, heldur býsna viðkunnanlegir. Gat ég sagt það sama um Alvin eða Yogi? Oj, nei!

Talsetningarnar eru nokkuð líflegar og það er ánægjulegt að sjá að enginn af mannfólkinu gerir neitt annað en að skemmta sér. Reyndar finnst mér eins og flestir séu að reyna að krydda upp á þetta arfaslaka handrit með spuna og grínskotum á sumt innihaldið (Katy Perry - sem talar fyrir Strympu - vitnar meira að segja í sjálfa sig). Neil Patrick Harris er skemmtilegur að venju og snýr einmitt oft út úr efninu og segir það sem áhorfandinn er oft að hugsa (gaman t.d. að því sé ekki leynt hvað Strumpalagið er böggandi). Harris er stór plús og sömuleiðis Hank Azaria, sem er augljóslega ófeiminn við það að vera meira en örlítið "over-the-top" sem misheppnaði skúrkurinn Gargamel - sem ég mun alltaf kalla Kjartan. Azaria tekur sig ekki alvarlega í eina sekúndu og fannst mér það akkúrat við hæfi. Myndin er miklu meira sjálfmetvituð en ég bjóst við, og þess vegna spái ég að fólk fái mun sjaldnar kjánahroll en það gæti átt von á.

En ef Strumpalagið og yfirþyrmandi krúttleiki persónanna fer ekki í taugarnar á þér þá eru alveg líkur á því að *földu* auglýsingarnar geri það (var ekki Hop búin að tækla Guitar Hero-plöggið??). Orðaforðinn reynir líka eflaust á þolinmæði sumra, en alveg eins og stefið þá er minnst á það í djóki. Ef menn ætla sér þó að fara að æla yfir þessu þá get ég ekki annað en sagt: "Þetta er Strumpamynd! Við hverju býstu?" Í allra versta falli get ég þó mælt með þessari mynd fyrir þá sem eru í leit að góðum drykkjuleik (takið einn sopa í hvert sinn sem einhver notar staka orðið "Smurf," en heilt skot þegar það er tengt við annað orð). Sjálfur hló ég allavega örlítið meira en ég þori að viðurkenna.

The Smurfs er sumsé meinlaus mynd, þrátt fyrir ákveðið hugmyndar- og metnaðarleysi, og nær að vera einmitt það sem hún vill vera. Tölvuvinnan er einnig hörkugóð og teiknimyndafílingurinn mátulega mikill. Krakkar munu vafalaust njóta hennar í botn og fullorðnir ættu ekki að rotna svo lengi sem þeir viti eitthvað um Strumpana fyrirfram og hvernig persónur þetta eru. Svo eru margir af eldri kynslóðinni sem eiga eftir að finna fyrir smá nostalgíufiðring. En bara smá.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

12.08.2013

Fjölskyldan fer í bíó

Fjölskylduvænar myndir eru vinsælar þessa dagana, sem sést best á því að Strumparnir 2 halda sæti sínu á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans aðra vikuna í röð og í öðru sæti er Monsters University á sinni þriðj...

06.08.2013

Blátt og rautt á toppnum

Teiknimyndin um hina smávöxnu bláu strumpa og ævintýri þeirra, Smurfs 2, eða Strumparnir 2, er vinsælasta myndin á Íslandi í dag, en í sætinu á eftir koma ellibelgirnir í gaman-spennumyndinni Red 2, eða Rautt 2, en þ...

03.08.2013

2 Guns vinsælust í USA

Eftir bíósýningar gærdagsins í Bandaríkjunum er ljóst að 2 Guns, mynd Baltasars Kormáks með Denzel Washington og Mark Wahlberg í aðalhlutverkum, er mest sótta myndin í landinu, og betur sótt en bæði The Wolverine og T...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn