Ekki hef ég einu sinni hugmynd um hvers vegna ég skellti mér á þessa, þar sem fyrri myndin var býsna léleg og jafnvel þættirnir eru endalaus copy-of-a-copy. En það kom mér á óvart að Scooby-Doo 2 skuli hafa reynst mun áhorfanlegri mynd en ég bjóst við, og betri en sú fyrri (orðið ''skárri'' passar þó betur miðað við gæði hennar). En ekki fara að skynja að einhver meðmæli séu á leiðinni hjá mér.
Besta lýsing þessarar myndar er að hún er fín meðan stendur. Maður hlær stundum að vitleysunni, hefur lúmskt gaman af hamagangnum, brosir út í eitt við sumum gestahlutverkunum og þetta sannfærði mig a.m.k. mun meira en áður og því er ég örlátari gagnvart framhaldinu. Mér finnst hinsvegar frekar slappt af aðstandendum að hafa ekki bætt tæknibrellurnar. Titilpersónan er alveg nákvæmlega eins og í fyrri myndinni og hefur ekkert verið lagt í að gera hana flottari. Heldur hefur ekki mikið verið lagt í handrit miðað við fjármagnið, en það er þó allavega skárra núna og myndin er mjög trú teiknimyndunum á köflum.
Krakkar eiga eftir að elska þessa mynd, en fullorðnir... Tja... Ef gert er ráð fyrir hvers konar efni er um að ræða fyrirfram ætti þetta ekki að vera svo slæmt.
6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei