Aniston úthverfamamma?

AnistonFriends stjarnan Jennifer Aniston á í viðræðum um að leika í myndinni Mean Moms, eða Meinfýsnar mömmur í lauslegri íslenskri þýðingu, sem Beth McCarthy-Miller mun leikstýra, en myndin er kvikmyndagerð á bók eftir Rosalind Wiseman um metnaðargjarna foreldra í úthverfunum.

Myndin er sögð verða í anda myndarinnar Mean Girls, þó ekki sé um framhald að ræða. Báðar myndir eru gerðar eftir bókum sama höfundar, þ.e. Wiseman, en Mean Moms er gerð eftir bókinni með því snaggaralega nafni: “Queen Bee Moms and King Pin Dads: Dealing With the Parents, Teachers, Coaches, and Counselors Who Can Make — or Break — Your Child’s Future,” en Mean Girls er gerð eftir bókinni “Queen Bees and Wannabes.”

Mean Moms fjallar um konu sem er hamingjusamlega gift og á tvö börn. Hún flytur úr litlum bæ í flott úthverfi þar sem gríðarleg samkeppni ríkir á milli foreldra um hver sé nú besti uppalandinn.

Síðustu myndir Aniston hafa slegið í gegn. We´re the Millers þénaði óvænt 269 milljónir Bandaríkjadala og Horrible Bosses var einnig gríðarlega vinsæl. Framhald þeirrar myndar verður frumsýnt í nóvember nk.

Næstu myndir Aniston eru “Life of Crime” og “Squirrels to the Nuts.”