Angurvær Jarfi og Prófessor X í fyrstu stiklu úr Logan

Angurværð svífur yfir vötnum í fyrstu stiklu fyrir Marvel ofurhetjumyndina Logan, þriðju og síðustu Wolverine myndina, en þar hefur ellikerling sett mark sitt á Jarfa ( Wolverine ) sjálfan sem og prófessor X, og svo virðist sem kraftar þeirra fari þverrandi.

logan-hugh-jackman

Eftir að hafa leikið í öllum átta X-Men myndunum til þessa, þá er nú komið að því að Hugh Jackman setji Wolverine klærnar upp á hillu, í þessari níundu og síðustu mynd úr X-men bálkinum.

Það er óvenjulegur tónn, dramatískur og persónulegur, í þessari stiklu, og því verður gaman að sjá hver endalokin verða hjá þessari mögnuðu ofurhetju.

Myndin á að gerast einu ári eftir atburðina í X-Men: Days of Future Past og Logan má nú muna sinnn fífil fegurri. Í lok stiklunnar kemur þó í ljós að hann er ekki dauður úr öllum æðum, þrátt fyrir allt, enda þarfnast ung stúlka hjálpar hans.

Aðrir helstu leikarar eru Sienna Novikov, Boyd Holbrook, Richard E. Grant, Stephen Merchant og Patrick Stewart.

Myndin kemur í bíó 3. mars nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:

logan-poster-620x919