Eftir að Sony gaf út opinbert plakat og þrjá auglýsingarborða fyrir The Amazing Spider-Man, hefur heimasíða myndarinnar verið opnuð. Á henni má finna glænýjar ljósmyndir af bæði Köngulóarmanninum og helstu lykilkarakterum myndarinnar, ásamt lýsingu á hverjum og einum. Heimasíðan gefur meira innsæi inn í ennþá-gruggugu söguna og það virðist sem að slagorð plakatsins, sem sagði að hér væri ósagða sagan, var alls ekki að ljúga.
Þeir sem þekkja til Spider-Man mynda Sam Raimi munu án efa taka eftir róttækum breytingum á bæði sögunni og karakterunum; t.d. þá verður rauðhærða skvísan Mary Jane ekki til staðar, heldur, í takt við myndasöguna, verður ljóshærða lögregludóttirin Gwen Stacy ástin í lífi Peters Parker. Sá karakter var í aukahlutverki í þriðju Sam Raimi myndinni. Einnig verður einblínt á harminn sem að foreldramissirinn hefur á Parker, í staðinn fyrir frænda hans Ben. The Amazing Spider-Man verður, að sögn, meiri ráðgátu-mynd og ásamt því að dvelja meirihlutanum á framhaldsskólalífi Parkers, mun hún fjalla að miklu leiti um atburðina sem gerðu hann munaðarlausan.
Heimasíðan staðfestir einnig ummæli Sony í mars síðastliðnum um að þetta verði ekki eina myndin í seríunni. Einn af handritshöfundum Amazing Spider-Man, James Vanderbilt, mun sjá um að skrifa framhaldið; sem hefur nú þegar fengið útgáfudaginn 2. maí 2014.
Spennan fyrir The Amazing Spider-Man virðist hækka smá með nánast hverri uppfærslu, eða a.m.k. hjá undirrituðum, það verður þó bara að koma í ljós hvort að hún hafi roð í tvær af stærstu kvikmyndum næsta árs: The Avengers og The Dark Knight Rises. Hún verður miðjubarn ofurhetju myndanna næsta sumar, en hún er væntanleg 3. júlí.