Ali í True Detective 3 viðræðum

Moonlight Óskarsverðlaunaleikarinn Mahershala Ali á nú í viðræðum um að leika í þriðju þáttaröð HBO sjónvarpsþáttanna vinsælu True Detective, en orðrómur hefur verið uppi um tíma um að þessi þriðja þáttaröð verði gerð.

Á síðustu árum hafa fáar þáttaraðir slegið eins hressilega í gegn í sjónvarpi og fyrsta þáttaröð True Detective, með þeim Matthew McConaughey og Woody Harrelson í aðalhlutverkum. Önnur þáttaröð vakti ekki eins mikla hrifningu, en þar var sögð önnur saga með öðrum aðalleikurum.

HBO tilkynnti á sínum tíma að möguleiki væri á þriðju þáttaröðinni, og fyrir fáeinum mánuðum var tilkynnt að þróun væri hafin á þáttaröðinni hjá upprunalegum höfundi þáttanna Nic Pizzolatto og Deadwood höfundinum David Milch.

Vefsíðan The Tracking Board greindi fyrst frá viðræðunum við Ali, en fátt annað er vitað að svo stöddu. Fólk sem vefsíðan treystir telur að samningar séu þó að nást við leikarann.

Auk Moonlight þá hefur Ali átt farsælan sjónvarpsferil, í þáttum eins og House of Cards og Marvel þáttunum Luke Cage.

Fyrir aðdáendur True Detective þáttanna þá er þetta vonandi vísbending um að þáttaröð númer 3 fari alla leið í framleiðslu.