Ný Sveppamynd í tökur í maí

Tökur á framhaldsmynd um ævintýri Sveppa og félaga, Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið, hefjast 25. maí næstkomandi. Bragi Þór Hinriksson leikstjóri og Alfreð Ásberg Árnason framkvæmdastjóri Sambíóanna skrifuðu á dögunum undir samning um sýningu myndarinnar í Sambíóunum en myndin verður frumsýnd þar 10. september næstkomandi.

Myndin kemur í kölfar velgengni fyrri myndar um Sveppa og félaga, Algjör Sveppi og leitin að Villa, sem sýnd var á síðasta ári og er einnig komin út á DVD.

Sveppi sjálfur verður að sjálfsögðu í aðalhlutverki og munu nokkrir af fremstu leikurum þjóðarinnar koma fram í myndinni í minni hlutverkum, ásamt óvæntum gestum að talið er, að því er fram kemur í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.

Hægt er að sjá brot úr myndinni á síðu myndarinnar hér á kvikmyndir.is

Alfreð og Bragi handsala samning um sýningu myndarinnar í Sambíóunum.