Sherlock Holmes aftur í tökur

Nýjasta mynd Guy Ritchie, Sherlock Holmes, með Robert Downey Jr. í aðalhlutverki mun fara aftur í tökur en tökum á myndinni lauk fyrir all nokkru. Samkvæmt The Mirror hafði Guy klippt grófa útgáfu af myndinni og kvikmyndaframleiðendurnir höfðu heimtað að hann bætti við Moriarty, erki óvini Sherlock Holmes. Ekki nóg með það heldur heimtuðu þeir að hann breytti titli myndarinnar einnig, en nýr titill myndarinnar er Mystery of the Missing Moriarty.

Þetta eru í sjálfu sér ekki slæmar fréttir því Guy Ritchie hringdi í félaga sinn Brad Pitt og bað hann að taka að sér hlutverkið, sem hann þáði. Þannig að nú hefur Brad Pitt bæst í myndina en Guy þarf að fara aftur í tökur.

Vonum bara að þetta hafi ekki áhrif á gæði myndarinnar, að þeir séu að taka upp og bæta við heilum erkióvini, fyrir útgáfudag. Sem er 25. desember.

Viðbót. Warner Brothers hefur gefið út tilkynningu vegna fréttar The Mirror og segir þetta hrein ósannindi. Brad Pitt sé ekki að fara leika í
myndinni og að þeir séu mjög ánægðir með myndina eins og hún er.