Samkvæmt Variety er afar líklegt að Rob Marshall muni leikstýra fjórðu myndinni í Pirates of the Caribbean-seríunni. Gore Verbinski, sem stýrði þríleiknum, ákvað að segja pass og einblína frekar á hina væntanlegu Bioshock-bíómynd.
Þótt það sé ekki alveg 110% þá er nánast alveg bókað að Marshall ákveði að taka þátt, en fyrir þá sem ekki vita þá er þetta sami maðurinn og stýrði Chicago, Memoirs of a Geisha og er núna að leggja lokahönd á söngleikinn Nine (ekki rugla henni saman við teiknimyndina 9).
Orlando Bloom afþakkaði boðið að leika í þessari mynd, og Keira Knightley þykir heldur ekki líkleg til að snúa aftur. Johnny Depp er annars vegar gríðarlega spenntur að snúa aftur í hlutverkið sem kom honum opinberlega inn í „mainstream-ið.“ Handritshöfundar rembast nú við að búa til nýja karaktera ásamt því að finna eitthvað nýtt að gera fyrir Jack Sparrow.
Framleiðsla á myndinni hefst á næsta ári þannig að við gætum ekki átt von á myndinni fyrr en seinnipartinn á þarnæsta ári.
Hvað segið þið? Óþörf framlenging eða eitthvað til þess að bíða spenntur eftir?
Hvaða Pirates-mynd finnst ykkur annars best?

