Fjórir af betri leikstjórum heimsins í dag, þeir Spike Jonze ( Being John Malkovich ) , David Fincher ( Seven ) , Steven Soderbergh ( Traffic ) og Alexander Payne ( Election ) eru búnir að fá leið á því að stóru kvikmyndaverin séu sífellt að skipta sér að því hvernig þeir gera sínar myndir og hvað eigi að vera í þeim. Þeir ákváðu því saman (reyndar var Sam Mendes ( American Beauty ) boðið að vera með en hann afþakkaði) að stofna sitt eigið framleiðslufyrirtæki og gerðu samning við USA Films um að markaðssetja og dreifa myndunum þeirra. Fyrir utan stjórnina sem þeir fá þá yfir sínum eigin myndum, koma þeir til með að eiga réttinn á þeim í sjö ár eftir útgáfu þeirra, en slíkt er óþekkt í Hollywood kerfinu. Hver þessara leikstjóra hefur samþykkt að gera fyrir fyrirtækið þrjár myndir á næstu fimm árum til þess að eitthvað komi nú í kassann. Fyrsta myndin sem verður gerð undir fána þessa nýja fyrirtækis, verður endurgerð Soderberghs á rússnesku kvikmyndinni Solyaris sem Andrei Tarkovsky gerði árið 1972, og var vísindaskáldskapur í skrítnara lagi. Myndin sú fjallaði um geimfara sem er sendur á geimstöð nokkra, þar sem hann finnur einn vísindamanninn látinn og hina gjörsamlega vitstola eftir alls kyns furðulegar sýnir sem bar fyrir augu þeirra.

