Hvar er húfa Nóa Albínóa?

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leitar nú logandi ljósi að leikmunum og fleiru sem tengist kvikmyndasögu Íslands: „Manstu eftir húfu Nóa albínóa ísmolanum úr James Bond, rifflinum úr Skyttunum, kokteilahristaranum úr Stellu í orlofi eða fjarstýringunni úr Sódómu Reykjavík?,“ segir í fréttatilkynningu frá hátíðinni. 

Í tilkynningunni segir einnig að munirnir muni öðlast nýtt hlutverk: „Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Norræna húsið óska eftir leikmunum, búningum og öðrum munum sem tengjast kvikmyndasögu Íslands fyrir föstudaginn 14. ágúst. Þessir munir öðlast nýtt hlutverk á sýningu sem sett verður upp á sérstökum Bíóbar í sýningarými kjallara Norræna hússins á meðan á kvikmyndahátíðinni stendur 17. – 27. september næstkomandi.

Á kvikmyndamuna-sýningunni verður hægt að líta á einstaka muni er gegndu mikilvægu hlutverki í hverri kvikmynd fyrir sig, en hafa ef til vill gleymst í tímans rás. Þannig verður hægt að skoða kvikmyndasögu Íslands út frá nýstárlegu sjónarhorni.

Á Bíóbarunum munu einnig ýmsir viðburðir fara fram s.s. tangóhorror tónleikar, fyrirlestrar, listasmiðjur og fleira. Fyrir utan það verður hægt að hvíla lúin bein á Bíóbarnum á milli kvikmyndasýninga hátíðarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Allir sem búa svo vel að eiga muni er tengjast kvikmyndasögu Íslands eru beðnir um að hafa samband við Ilmi Dögg Gísladóttur hjá Norræna húsinu. Þeir sem lána muni á sýninguna munu fá frímiða á Alþjóðlega kvikmyndahátíð.