Dómstóll í París hefur sektað kvikmyndafyrirtæki hins þekkta franska kvikmyndaleikstjóra Luc Besson um rúma 140 þúsund Bandaríkjadali, eða um tæpar 18 milljónir íslenskra króna vegna dauða myndatökumanns árið 1999, en tökumaðurinn lést eftir að bíl var ekið á hann þegar verið var að mynda áhættuatriði.
Rétturinn dæmdi einnig áhættuleikstjórann Remy Julienne, 79 ára, í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Fyrirtækið, Europacorp, hafði áður verið sýknað í undirrétti og dæmt Julienne í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Áfrýjunardómstóllinn dæmdi Europacorp fyrir manndráp af gáleysi og sektaði það um 100 þúsund dali. Að auki þurfa fyrirtækið og Julienne að greiða í sameiningu 20 þúsund dali til beggja foreldra tökumannsins sem lést og 10 þúsund dali til beggja bræðra hans.
Alain Dutartre, sem var 41 árs gamall tökumaður, varð fyrir bíl í ágúst 1999 þegar verið var að taka upp myndina Taxi 2, sem er frönsk mynd um bílaeltingarleik. Luc Besson framleiddi myndina en hann hefur sjálfur leikstýrt myndum eins og The Fifth Element,“ og Nikita.“
Ekki er enn ljóst hvort að dómnum verði áfrýjað.

