Nýjasta myndin í leikstjórn Frank Millers, höfundar 300 (handrit og myndasaga) og Sin City (leikstjórn, handrit og myndasaga) floppaði illa þegar hún var frumsýnd vestanhafs sem og hér á Íslandi.
Myndin ber nafnið The Spirit og er gerð eftir samnefndri myndasögu Will Eisner, en hún segir frá lögreglumanninum Denny Colt (Gabriel Macht) sem
rís upp frá dauðum til að berjast við glæpamenn í skjóli nætur.
Myndin hefur hlotið afhroð meðal gagnrýnenda, Roger Ebert sagði hana ekki hafa snefil af persónuleika og Frank Lovece sagði að Will Eisner væri eflaust að snúa sér við í gröfinni núna. Owen Gleiberman sagði einnig: ,,Að spyrja af hverju eitthvað gerist í þessari ofstæluðu mynd Frank Millers er æfing útaf fyrir sig. Spurningin sem fólk ætti að spyrja sig frekar að er af hverju þessi mynd er til til að byrja með.“ Gagnrýnandi Kvikmyndir.is, Tómas Valgeirsson, var ekki hrifinn af henni, gaf henni 4 af 10 og kallaði hana stílískan kjánahroll. Myndin fær 5,3 á IMDB.com, 14% á RottenTomatoes.com og 30 af 100 á Metacritic.com.
Ekki hefur henni gengið betur í miðasölunni, hún hefur þénað 17,7 milljónir í Bandaríkjunum og samtals 21,5 milljónir á heimsvísu yfir 11 daga tímabil. Hún græddi rétt rúmar 6 milljónir opnunarhelgi sína í Bandaríkjunum og lenti í 9.sæti á lista yfir tekjuhæstu myndirnar þá helgi. Lions Gate hefur ekki gefið út hversu mikill peningur fór í framleiðslu myndarinnar, fyrri myndir Millers, Sin City kostaði 40 milljónir og 300 65 milljónir.
Á Íslandi gekk henni ekki betur, hún þénaði rétt rúmar 1,2 milljónir yfir helgina og opnaði í 7.sæti yfir tekjuhæstu myndirnar, en nákvæmlega 1.350 manneskjur sáu hana í kvikmyndahúsunum.

