The Dark Knight steypt af stóli

 Nýjasta Batman myndin, The Dark Knight er komin í 3.sætið á lista Internet Movie Database yfir bestu myndir allra tíma, en myndin er komin niður í 9,1 í einkunn. The Shawshank Redemption situr nú sem fastast í efsta sæti listans og The Godfather fylgir fast á hæla hennar. Þessar þrjár myndir eru allar með sömu einkunn, en fjöldi atkvæða er mismunandi, og sú mynd með færri atkvæði en ella verður undir.

Miklir orðrómar höfðu verið um að IMDB.com hafi verið undir árás tölvuþrjóta, en listinn hafði verið í miklu veseni og greinilegt að lagfæringar stóðu yfir. Einnig voru orðrómar um að gríðarlegur fjöldi Batman njörða hefðu tekið sig saman og kosið The Godfather sem verstu mynd allra tíma, til þess eins að koma The Dark Knight á toppinn.

Það er þó ekki aðeins á vefnum sem The Dark Knight hlýtur ekki náð fyrir augum áhorfenda, en hún hefur glatað toppsæti sínu sem aðsóknarmesta myndin í íslenskum kvikmyndahúsum eftir þriggja vikna viðveru á toppnum, en síðustu þrjár helgar frá frumsýningu myndarinnar hafði hún náð að landa fleiri áhorfendum í bíósalinn en nokkur önnur mynd á landinu. The Mummy: Tomb of the Dragon Emperor, sem hlotið hefur misgóða dóma hjá gagnrýnendum, tókst að steypa henni af stóli og fer ekki fet úr fyrsta sæti vinsældarlistans yfir aðsóknarmestu myndir helgarinnar.